150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

mætingarskylda nefndarmanna á fundi.

[15:01]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Eins og þingheimi er kunnugt hafa verið veitt afbrigði frá ákvæðum þingskapa um mætingarskyldu nefndarmanna á fundi fastanefnda þingsins og um ályktunarbærni funda þingnefnda. Miðað hefur verið við að afbrigðin gildi út þetta þing og að þau verði nýtt eftir því sem nauðsyn krefur. Á þessum grundvelli og með vísan til 5. mgr. 8. gr. þingskapa hefur forseti gefið út leiðbeiningar um fundahöld og notkun fjarfundabúnaðar á fundum fastanefnda.

Þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar hafa verið á fyrirkomulagi funda fastanefnda og tilkynnt var um á þingfundi 29. maí sl. er nauðsynlegt að hafa í huga að þó að nefndarfundir hafi færst í átt að því sem þingmenn voru vanir, gætir enn áhrifa farsóttarinnar, til að mynda eru fundir með gestum takmarkaðir og áhrifa gætir enn í flugsamgöngum.

Forseti leggur því til í þessu ljósi að þau afbrigði sem veitt hafa verið verði nýtt með eftirfarandi hætti: Nefndarmenn skulu að jafnaði vera staddir á fundarstað. Nefndarmenn sem af sóttvarna- eða heilsufarslegum varúðarástæðum óska þess að taka þátt í fundi nefndar með fjarfundabúnaði, eða á meðan takmarkanir á flugsamgöngum vegna faraldursins setja möguleikum landsbyggðarþingmanna íþyngjandi skorður, er slíkt heimilt og skulu þeir tilkynna þar um með nægilegum fyrirvara til að hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana.