150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

samningar við Reykjavíkurborg um sölu lands.

[15:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Síðustu misseri hefur þessi ríkisstjórn gert ýmiss konar samninga, samkomulög við borgarstjórnarmeirihlutann í Reykjavík og hvað eftir annað kemur á daginn að ráðherrar, og kannski ekki hvað síst sá ráðherra sem hefur haft forgöngu um það, virðast ekki átta sig á því hvað þeir eru að skrifa undir. A.m.k. er mjög ólíkur skilningur á því hvað í þessum samningum felist. Ríkið hefur líka gert samninga við sveitarfélög um að selja lóðir í eigu ríkisins, oft á algerum kostakjörum að því er virðist, oft og tíðum í einhverjum allt öðrum tilgangi en að hámarka verðmæti eigna ríkisins. Ég nefni sem dæmi sölu á Vífilsstaðalandinu til að koma í veg fyrir byggingu nýs spítala. Sama má segja um Keldnalandið sem reyndar á að selja líka til að fjármagna borgarlínu fyrir meiri hlutann í Reykjavík og svo á sínum tíma sölu á hluta af landi ríkisins undan flugvellinum í Vatnsmýri. Þetta var reyndar í tíð forvera hæstv. ráðherra og það samkomulag með stökustu ólíkindum gert á milli ráðherra Samfylkingarinnar og borgarstjóra Samfylkingarinnar þar sem ríkið gaf nánast eða seldi á mjög góðum kjörum land undan flugvellinum í Vatnsmýri, flugvelli sem er sameign þjóðarinnar. Land undan flugvellinum var selt en þó látið fylgja sögunni að það væri skilyrði samkvæmt þessum samningi að landið yrði selt á markaði til að tryggja lágmarksheimtur fyrir ríkið.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur hæstv. ráðherra gert einhverjar breytingar á þessu eða einhverjir aðrir? Því að nú er Reykjavíkurborg byrjuð að útdeila þessu landi án þess að setja það á markað. Spurningin er einföld: Hefur verið gerð breyting á þessum samningi ríkisins og Reykjavíkurborgar (Forseti hringir.) frá 2013 þar sem kveðið er á um að þetta land skuli allt fara á markað?