150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

samningar við Reykjavíkurborg um sölu lands.

[15:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nú meina að ágætlega hafi verið passað upp á hagsmuni ríkisins í samskiptum við borgina eins og önnur sveitarfélög. Í þessari fyrirspurn hafa verið nefnd dæmi um samninga sem t.d. eru með ýmiss konar ábataskiptafyrirkomulagi til framtíðar þannig að ef virði landsins vex eftir samningsgerðina, t.d. með breytingu á skipulagi, þá nýtur ríkið góðs af því með auknum hlut sínum. Það sem snertir síðan höfuðborgarsamkomulagið, þ.e. samkomulag um bættar samgöngur hér á höfuðborgarsvæðinu, eru skýr ákvæði um aðkomu þingsins í því máli og samhengi við samgönguáætlun sem er nú hér til meðferðar í þinginu og mjög langt komin. Annað frumvarp er sömuleiðis til umfjöllunar í þinginu til að setja ramma utan um það. Þingleg aðkoma að þessum málum er því mjög ríkuleg.