150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

yfirvofandi verkfall hjúkrunarfræðinga.

[15:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurn sem ég held að brenni á okkur öllum og tek undir þau sjónarmið sem fram koma í fyrirspurninni um mikilvægi þess að ljúka samningum. Það er rétt að halda því til haga að fundað verður í dag þannig að það er líklega ekki ráðlegt að heilbrigðisráðherra hafi mörg orð um innihald samningsins eða hvað beri í milli hjá samningsaðilum.

Ég vil hins vegar segja að þau samskipti sem átt hafa sér stað milli samninganefndar ríkisins og hjúkrunarfræðinga hafa verið góð allan tímann. Þessir kjarasamningar hafa verið gríðarlega flóknir og hafa aðilar fundið lausnir á mjög flóknum viðfangsefnum sem lúta að kjaraumhverfi hjúkrunarfræðinga. Það er ekki síst vegna óeigingjarns vinnuframlags hjúkrunarfræðinga við samningaborðið. Þá er ég að tala um það sem lýtur að vaktavinnufólki og launum fyrir vaktavinnu. Það hefur verið gríðarlega mikilvægt og er mikilvægur hluti sem má segja að báðir aðilar séu sáttir við niðurstöðuna í og er í raun og veru kjarninn í því að gjörbreyta kjaraumhverfi hjúkrunarfræðinga. En það sem stendur enn þá út af, eins og hv. þingmaður nefnir og hefur komið fram í fjölmiðlum, er launaliðurinn sjálfur.

Ég deili áhyggjum hv. þingmanns varðandi það verkefni sem lýtur að sýnatökum við landamæri, að við þurfum að sjálfsögðu á heilbrigðisþjónustunni okkar að halda og þeirri mönnun sem þar er fyrir hendi. Það gildir jafnt um hjúkrunarfræðinga og aðrar heilbrigðisstéttir.