150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

kjaradeila hjúkrunarfræðinga.

[15:50]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í dag fór fram fyrsti stöðufundur þríeykisins svokallaða frá 25. maí þegar þau Alma, Þórólfur og Víðir fóru yfir stöðu og álitaefni í tengslum við opnun landsins sem fyrirhuguð er eftir rúma viku. Það er þekkt að við höfum náð góðum árangri og við viljum vitaskuld öll að hann haldist. Við erum þakklát sérfræðingum okkar fyrir góðan árangur og við megum heldur ekki gleyma því að vera þakklát fólkinu í landinu sem lagði mikið á sig til að ná fram þessum góða árangri með því að taka þátt og gangast undir takmarkanir á daglegu lífi og atvinnufrelsi. Ég held að allt almenningsálit og þjóðin öll sé á því að þar hafi heilbrigðisstarfsfólkið reynst okkur einna mikilvægast, störf þess og framlag, að öllum öðrum virtum.

Í dag heyrðum við landlækni lýsa því yfir að staðan í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga væri ógn við það verkefni að opna landið, heilbrigðiskerfið yrði einfaldlega ekki rekið án hjúkrunarfræðinga. Sýnatökur verða ekki framkvæmdar snurðulaust án hjúkrunarfræðinga og skimunin í öllum faraldrinum hefur fyrst og fremst verið unnin af hjúkrunarfræðingum.

Í því sambandi spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi áhyggjur af stöðunni hvað varðar kjaradeiluna og samninga við hjúkrunarfræðinga. Sér hann fyrir sér hverjar afleiðingar verkfalls hjúkrunarfræðinga geti orðið fyrir opnun landsins? Hyggst hann beita sér fyrir lausn og þá lausn til framtíðar?