150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

kjaradeila hjúkrunarfræðinga.

[15:54]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra hvað áhyggjurnar varðar, hagsmunirnir eru auðvitað þannig og tíminn er einfaldlega mjög naumur. En eftir stendur að við stæðum ekki frammi fyrir þeim vanda að horfa fram á mögulegt verkfall ef þessi mál hefðu verið tekin af meiri alvöru og meiri ábyrgð á kjörtímabilinu. Við stæðum ekki frammi fyrir því að nokkrum dögum áður en opna á landamærin sé enn þá ósamið við þá stétt sem mun leiða skimunina og tryggja að þetta geti gengið vel. Það hefur legið fyrir alveg frá því að rætt var um að opna landið að það verkefni verður ekki leyst með hjúkrunarfræðinga í verkfalli. Sú staða er ekki bara ógn við verkefnið, eins og landlæknir sagði réttilega, heldur ógn við okkur öll.

Það skiptir máli að ríkið vanræki ekki að sinna fjárfestingum í innviðum. Sinnuleysi þar verður að skuld og almenningur greiðir þá skuld, sérstaklega ef flóttinn úr stétt hjúkrunarfræðinga, sem við þekkjum að er veruleiki, heldur áfram. Þar verður ekki litið fram hjá því að þetta er jafnréttismál og að hjúkrunarfræðingar eru kvennastétt. (Forseti hringir.) Flótti úr stéttinni er að mínu viti augljóst merki um markaðsbrest og hér blasir því miður við að það mun koma að skuldadögum og ekki er hægt að líta (Forseti hringir.) fram hjá því að samningurinn var felldur.