150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

efnahagslegur ábati af opnun landsins.

[15:57]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Með hækkandi sól fyllumst við oft bjartsýni og brosi. Ég vil leyfa mér að nota hugtakið fordæmalaust, við höfum gengið í gegnum fordæmalausan vetur, fyrir áramót í ofsaveðrum og afleiðingum sem þeim voru samfara og svo núna í þessu ófremdarástandi kórónuveirufaraldurs sem hefur herjað á heimsbyggðina. Nú erum við að fara að létta á höftum við komu ferðamanna til landsins eftir viku og mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann og fjármálaráðuneyti hans, af því að ég veit að hann er vakinn og sofinn í þessu og hefur sannarlega fengið að finna fyrir þeim átökum sem við höfum verið að ganga í gegnum út af kórónuveirufaraldrinum, sé með einhverjar sviðsmyndir, eitthvað sem hann eigi fyrir okkur, björtustu sviðsmyndina eða þá svörtustu? Við erum jú að sigla inn í algjöra óvissu. Eins og ég segi og ítreka bjartsýn og brosandi, við höfum nánast verið eins og kýr sem er hleypt út á vorin eftir að fór að slakna á hér innan lands. Við höfum væntanlega unnið fyrsta áfangann gegn veirunni en við vitum, og sóttvarnalæknir og fleiri hafa sagt það, að við eigum ekki bara sennilega heldur nánast örugglega eftir að þurfa að ganga í gegnum annað áfall. Það hefur líka verið viðurkennt að það verður gríðarlegur kostnaður því samfara að ráðast í þær aðgerðir sem á að fara að ráðast í núna á landamærunum. Á hæstv. fjármálaráðherra einhverja sviðsmynd fyrir okkur, þá björtustu, þá svörtustu, sem sýnir fram á þann efnahagslega ábata sem það felur í sér að fara í þessa opnun hér og nú?