150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

efnahagslegur ábati af opnun landsins.

[16:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég er honum hjartanlega sammála. Auðvitað verðum við að gera hvaðeina sem í okkar valdi stendur til að reyna að skapa þau störf sem mögulegt er að skaffa. Ég var meira að velta fyrir mér að við byggjum allt meira og minna á einhverjum spálíkönum, eins og ég þekki úr fjárlaganefnd, þannig að við erum í óvissu hvað þetta varðar.

Ég velti fyrir mér þeim gríðarlega kostnaði sem þessu fylgir. Talað var um í kringum 170 millj. kr. í kostnað fyrstu tvær vikurnar miðað við að 500 ferðamenn kæmu til landsins. Nú er talað um hugsanlega 1.000 og þá mun kostnaðurinn væntanlega verða meiri, a.m.k. þessar tvær vikur. Það er alls konar annar kostnaður og líka annar ábati sem við finnum. Við erum að markaðssetja landið okkar innan lands fyrir Íslendinga á sama tíma og við erum að ráðast í risamarkaðsátak til að fá fólk til okkar. Íslendingar eru farnir að bregðast við og ferðast allnokkuð mikið innan lands. Áður fannst okkur jafnvel sumum að ekki væri pláss fyrir okkur heima af því að við vorum svo vinsæl. (Forseti hringir.) Ég er að hugsa um hver sé akkurinn af þessu núna þegar við sjáum hugsanlega fram á lyf við veirunni. Það er svo margt sem verið er að velta upp. En mig langar að vita hvort hæstv. ráðherra hafi séð einhvern skýrari ábata.