150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

skimanir ferðamanna.

[16:04]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því hversu ágætlega stjórnvöld hafa brugðist við Covid-vandanum frá því að hann kom upp í byrjun febrúar. Allar aðgerðir hafa verið teknar með tilliti til meðalhófs og jafnræðis og menn hafa ekki látið geðshræringuna hlaupa með sig í gönur, eins og við höfum séð í mörgum löndum í kringum okkur og jafnvel nágrannalöndum okkar. Þess vegna var það illu heilli að mínu mati að ákvörðun var tekin í byrjun maí um að loka í raun landamærum Íslands með því að krefjast þess að menn færu í sóttkví sem hingað kæmu í 14 daga. Sérstaklega fannst mér undarlegt að taka slíka ákvörðun í byrjun maí þegar það hafði sýnt sig að hér var ekki mikill ágangur af ferðamönnum inn til landsins og var kannski óþarfi, og þá í ljósi meðalhófsreglu, að taka slíka ákvörðun.

Nú hefur hins vegar verið tekin ákvörðun um að aflétta þessari kröfu að nokkru leyti með því að gefa fólki kost á að þiggja skimun, eða kaupa sér skimun öllu heldur, frá 15. júní. Þetta er í rauninni sú krafa sem gerð verður til einstaklinga sem hingað koma, því að það er kannski ekki raunhæft að ætla mönnum að þiggja það að fara í 14 daga sóttkví.

Það liggur líka fyrir að menn hafa viljað fylgja ráðum okkar færustu lækna og sérfræðinga, en sérfræðinga greinir á um kosti þess og markmið að skima. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það stangist hugsanlega á við jafnræðissjónarmið og meðalhóf að óska eftir að allir ferðamenn sem hingað koma fari í þessi próf eða sæti sóttkví ella. Kæmi ekki enn þá til greina að gæta meira meðalhófs í þessu eins og með t.d. (Forseti hringir.) stikkprufum? Sérstaklega vil ég nefna nýjar fréttir varðandi það að við getum ekki sinnt fleirum en 2.000 manns á dag.