150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

skimanir ferðamanna.

[16:07]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Hún er hluti af því sem rætt hefur verið í samfélaginu undanfarnar vikur, sem er hvort það sé rétt og skynsamleg ákvörðun að fara þá leið að taka sýni úr farþegum sem koma til landsins og úr hverjum einasta einstaklingi. Eins og hv. þingmaður bendir á höfum við borið gæfu til þess að fylgja ráðum okkar besta fólks í hverju skrefi. En því skal jafnframt til haga haldið að það hafa verið álitamál í hverju einasta skrefi. Það er ekki þannig að allir hafi verið sammála um skrefin sem tekin hafa verið hingað til heldur hefur sóttvarnalæknir átt samtöl við kollega sína á öllum stigum máls og komist síðan að niðurstöðu sem hann færir fram í minnisblaði til mín sem heilbrigðisráðherra á grundvelli sóttvarnalaga. Það er hans hlutverk samkvæmt sóttvarnalögum að ráðleggja heilbrigðisráðherra á hverjum tíma varðandi næstu skref. Það er ráðgjöf sóttvarnalæknis á þessum tímapunkti að fara að með einstakri gát við að opna betur fyrir gestum, bæði ferðamönnum og svo auðvitað Íslendingum sem búa erlendis og vilja koma heim.

Hv. þingmaður spyr um jafnræðisreglu og meðalhóf. Við erum þeirrar skoðunar að þegar um val er að ræða, þegar viðkomandi getur farið aðra hvora leiðina, farið í sóttkví ellegar greitt fyrir sýnatöku, séu þau sjónarmið tryggð. Hins vegar hef ég sagt það og sóttvarnalæknir hefur líka haldið því til haga, að þetta verkefni er af því tagi að við þurfum að hafa í það bein að vega og meta gæði þess og réttmæti eins og því vindur fram.