150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

skimanir ferðamanna.

[16:09]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Svo því sé haldið til haga held ég að það sé ekki degi of snemma sem landið verður opnað og fellt niður það fordæmalausa inngöngubann sem komið var á með sóttkvínni. Ég hjó eftir því á blaðamannafundinum í dag að sóttvarnalæknir nefndi að það væru takmörk fyrir því hversu margir ferðamenn gætu komið hingað á degi hverjum, eða 2.000 manns. Við höfum ekki hugmynd um hvort slíkur fjöldi hafi áhuga á að koma hingað. Sóttvarnalæknir nefndi að út júlí yrði skimað fyrir smiti hjá 2.000 manns. Þess vegna nefni ég jafnræðissjónarmiðið vegna þess að ef menn ætla að fara að setja takmarkanir á það hversu margir geta komið inn í landið og notið þeirra úrræða sem hér eru í boði er verið að fara gegn jafnræði og meðalhófi.

Svo vildi ég spyrja hæstv. ráðherra um gjaldtökuna, hvort hún telji nú ekki ráðlegra að lagagrundvöllur sé fyrir gjaldtökunni og hvort von sé á frumvarpi í þingið um hana. Ég þekki ákvæðin bæði í sóttvarnalögum og í lögum um heilsugæslu um greiðsluskyldu og finn þess ekki stað að þar sé lagaheimild fyrir slíkri gjaldtöku.