150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það komu fram ákveðnar athugasemdir í 2. umr. um málið. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd ákvað að taka málið aftur inn til nánari skoðunar og fékk til sín gesti frá ríkisskattstjóra, Persónuvernd og Lánasjóði íslenskra námsmanna til þess að fara betur yfir ákveðna þætti málsins. Niðurstaðan af því samtali og þeirri skoðun varð sú að gera lítils háttar breytingu á 3. mgr. 12. gr. sem felst í því að skýra með afmarkaðri hætti hvaða upplýsingar ríkisskattstjóra verði skylt að afhenda við framkvæmd laganna. Orðalagið var ekki nógu skýrt áður þannig að við ákváðum að skerpa á því. Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að 12. gr. sé í fyllsta samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og yfir það hefur verið farið mjög vandlega. Það er niðurstaðan.

Annað sem kom fram er að nefndin taldi ekki tímabært að hafa 7. mgr. 30. gr. í lögunum. Nefndin segir í áliti sínu að æskilegt sé að ráðuneytið haldi áfram að skoða þessar útfærslur í samráði við viðkomandi aðila, en það sé ekki tímabært að setja þær hugmyndir fram í lögum með þessum hætti að svo stöddu. Nefndin leggur því til að 7. mgr. 30. gr. falli brott.

Einnig þurfti að gera lítils háttar lagfæringu á ákvæði til bráðabirgða varðandi endurskoðunarákvæði laganna, að það verði á haustþingi 2023 en ekki á haustþingi 2026.

Nefndin leggur fram þessar breytingartillögur sem farið hefur verið yfir.

Birgir Ármannsson var fjarverandi en skrifar undir álit þetta samkvæmt 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis. Einnig eru á álitinu hv. þingmenn Páll Magnússon, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir.