150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og yfirferð hennar í þessu ágæta máli að mörgu leyti. Ég sagði það í minni ræðu að margt væri til bóta í þessu máli um Menntasjóð námsmanna og það væri mikilvægt. En það sem ég hef haft áhyggjur af er sá aukni kostnaður sem fylgir málinu. Það þarf að fjölga stöðugildum, allt að 15 starfsmenn sem þarf að bæta við hjá hinum nýja Menntasjóði námsmanna. Ég vil vekja athygli á nefndaráliti 1. minni hluta frá hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur þar sem hún fer aðeins yfir þetta og getur þess m.a. að við meðferð málsins hafi að mati 1. minni hlutans ekki verið veittar viðhlítandi skýringar á fjölgun starfsmanna sjóðsins. Þá skjóti skökku við að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir auknum umsvifum annarra stofnana en samhliða því sé ekki gert ráð fyrir fjölgun starfsmanna hjá þeim stofnunum.

Mig langaði aðeins að fá þetta fram hjá hv. þingmanni. Mér finnst þetta vera mjög mikilvægt í þessari umræðu núna og því efnahagsástandi sem við stöndum frammi fyrir. Það þarf að hagræða á mörgum sviðum vegna mikilla útgjalda ríkissjóðs og mikils halla á ríkissjóði vegna veirufaraldurs. Hér er verið að leggja til að fjölga ríkisstarfsmönnum um 15 stöðugildi sem kostar u.þ.b. 150 millj. kr. á ári. Var búið að fara ítarlega yfir þetta, hv. þingmaður? Er ekki möguleiki að breyta hér og draga úr þessari miklu starfsmannafjölgun? Er nefndin búin að fara ítarlega yfir þetta? Er alveg nauðsynlegt að fara þessa leið við að koma þessu mikilvæga máli í gegn?