150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi nefndarálit 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar, sem hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir fór mjög vandlega yfir, vil ég bara benda á, svo það sé sagt hér, að nefndin fékk ítarlegt minnisblað, m.a. frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, sem fylgir gögnum málsins, þar sem gerð er grein fyrir þeim verkefnum sem munu bætast við hjá starfsmönnum sjóðsins sem skýra kannski, alla vega að einhverju leyti, þetta mat á fjölgun stöðugilda.

Eins og ég sagði áðan í svari við andsvari hv. þm. Birgis Þórarinssonar fjallaði meiri hlutinn um þetta í nefndaráliti sínu og einnig var þetta nefnt nokkrum sinnum í umræðu um málið í þingsal. Matið væri að sjálfsögðu bundið ákveðinni óvissu og verður eitt af því sem þarf svolítið að koma í ljós þegar starfsemin fer af stað með breyttu sniði. Við deilum öll þessum áhyggjum, kannski ekki áhyggjum, en þetta er óvissa og það er staðreynd og ekki er hægt skýra þetta betur en gert hefur verið. Þetta er ákveðið mat út frá mjög óljósum forsendum.

En varðandi seinni hlutann, um A-, B- eða C-hluta stofnun, þá erum við einnig með mjög gott minnisblað frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem þau láta í ljós sína skoðun á þessu. En það var ekki verkefni nefndarinnar að skera úr um með hvaða hætti stofnunin færi inn í ríkisfjármálin. Þar af leiðandi tók nefndin ekki afstöðu til þess. En við getum náttúrlega hvert og eitt haft okkar skoðun á því og það er allt í góðu lagi. (Forseti hringir.) Annars hefur verið góð samstaða um málið og ég vona að hv. þingmaður geti tekið undir það.