150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Ég geri mér grein fyrir því að allt umhverfi Menntasjóðsins er flóknara en lánasjóðurinn hefur verið hingað til. Þar erum við að ræða bæði um styrki og lán, þetta eru ekki bara verðtryggð lán, það eru einnig óverðtryggð lán, hægt er að fara fram á niðurfellingu af lánagreiðslum og ýmisleg flækjustig eru í þessu. Það sem ég er kannski að falast eftir er að mér fannst skorta á greiningu á því hvað það væri raunverulega sem fjármunirnir eigi að fara í og hvaða þörf væri fyrir 10–15 starfsmenn, ég vildi bara fá það aðeins skýrar fram af hverju þessi aukning á að verða. Ég geri mér fulla grein fyrir því að við erum að fara inn á nýjan stað. Ég veit að það hefur enginn hér áður verið í þessu umhverfi en mér finnst einhvern veginn eins og það sé verið að skjóta á að við þurfum svona 10–15 starfsmenn, en betri sviðsmynd, eins og oft er notað í dag, hefði ég kosið.

Hitt er svo annað mál með A-, B- og C-hluta stofnun, að í mínum huga var það mjög mikilvægt að tryggja áfram að Menntasjóður gæti verið með sínar eigin sértekjur. Með því að opna á þetta eins og gert er, þó að það snerti ekki þetta frumvarp beint, þá segir það mér að fjármálaráðuneytið geti allt eins tekið fjármagn út úr þessum sjóði og nýtt í eitthvað annað. Og ef það er reyndin þá hef ég dálitlar áhyggjur af því.