150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Fyrst það að hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson nefndi í lok sinnar ræðu að sjóðurinn sem slíkur hefði kannski ekki hagsmuni. Ég vildi setja það í það samhengi að ef sjóðurinn er ekki sjálfbær þá þarf einhver að borga reikninginn og það kunna að vera skattgreiðendur. Þó að sjóðurinn sem slíkur hafi ekki endilega hagsmuni af því að allt gangi upp í fjárhagslegu tilliti þá eru þetta peningar, sem verður að greiða ef halli verður á rekstri sjóðsins eða hann getur ekki staðið undir sér, sem koma auðvitað frá skattgreiðendum og eru þá ekki notaðir til annarra verka. Það er vídd sem við þurfum að hafa í huga í þessum umræðum.

En það var nú ekki erindi mitt, herra forseti, að ræða þetta frekar. Ég, eins og aðrir þingmenn sem hér hafa talað, styð þetta mál. Ég tel að það sé í öllum aðalatriðum til mikilla bóta. Ég held að við fáum út úr þessu býsna gott kerfi. Ég held að það sé mikilvægt að við tökum það til endurskoðunar innan fárra ára eins og nú er gert ráð fyrir og held að það gefi okkur kost á að átta okkur betur á því hvaða breytingar þetta kemur til með að hafa í för með sér. Auðvitað verður lítið farið að reyna á endurgreiðslur að þremur árum liðnum en það verður hins vegar hægt að átta sig betur á því hver eftirspurnin verður eftir lánum frá þessum sjóði og fyrirgreiðslu hans. Að þremur árum liðnum getum við þá alla vega stigið fyrstu skrefin í að meta hvernig til hefur tekist. En ég er, eins og aðrir sem hér hafa talað, í meginatriðum þeirrar skoðunar að hér sé um framfaramál að ræða.

Það atriði sem ég ætlaði að gera athugasemd við á þessu stigi, bara til að nefna það hér við umræðuna — ég er ekki með breytingartillögur eða neitt slíkt og gerði það ekki á vettvangi nefndarinnar eða við fyrri umræður — er að ákvæði 27. og 28. gr. frumvarpsins hafa í raun fengið mjög litla athygli og umræðu í allri málsmeðferðinni. Ég vildi vekja athygli á því að þær breytingar sem þar er gert ráð fyrir vekja í mínum huga ákveðnar spurningar.

Í 27. gr. er gert ráð fyrir sérstakri ívilnun námsgreina og að ráðherra geti með auglýsingu ákveðið sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina. Hér er um að ræða breytingu sem þjónar þeim jákvæða tilgangi að örva eftirspurn eftir námi í tilteknum greinum, gera það fýsilegra fyrir námsmenn að velja sér ákveðnar námsgreinar, og auðvitað er gert ráð fyrir að byggt verði á mati á því hvaða þörf er fyrir hendi á vinnumarkaðnum. Með sama hætti er í 28. gr. gert ráð fyrir sérstakri ívilnun vegna námsgreina á sérstökum svæðum. Þar kemur byggðavinkill inn í þetta. Í báðum tilvikum er um að ræða markmið sem fallast má á að geti verið jákvæð. Það er annars vegar að stuðla að því að námsmenn velji tilteknar greinar þar sem hugsanlega er skortur og hins vegar að það verði hvati fyrir þá sem lokið hafa námi að velja sér búsetu eða starfsvettvang á svæðum þar sem þörf er á menntuðu fólki.

Ég verð hins vegar að játa að ég hef efasemdir um stýringu af þessu tagi. Ég er almennt ekki viss um að nota eigi endurgreiðslukerfi námslána til að hvetja fólk til að fara í tilteknar greinar eða til að starfa á tilteknum landsvæðum. Ég held að besta leiðin til að nálgast slík markmið sé einfaldlega að bjóða góð og samkeppnishæf laun í viðkomandi starfsgreinum eða á viðkomandi svæðum. Mér finnst miklu eðlilegra að nota það sem hvata en einhverja svona stýringu í gegnum endurgreiðslukerfi námslána. Ég veit að mjög margir í þessum sal eru mér ósammála um þetta en ég tel að það sé miklu æskilegra, segjum sem svo að það vanti hjúkrunarfræðinga á Kópaskeri eða lækni á Þórshöfn, að borga fólki betra kaup fyrir að vinna á þessum stöðum frekar en að fara út í einhverja fídusa varðandi námslánakerfið. Þetta er sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri hérna.

Annað atriði í þessu sambandi, sem ég ætla heldur ekki að gera neitt stórmál út af, en finnst þó rétt að nefna hér, er að í ákvæðum 27. og 28. gr. er að mörgu leyti mjög opin heimild fyrir ráðherra til að taka ákvarðanir í þessu sambandi. Það er gert ráð fyrir því að ráðherra geti ákveðið þetta með auglýsingu sem hefur stöðu reglugerðar í lagaumhverfinu. Ég myndi almennt telja betra að útfæra reglur sem fela í sér ívilnun frá almennum reglum í lögum frekar en í reglugerð eða auglýsingu. Þetta vildi ég nefna. Þetta eru ekki stór atriði í heildarsamhengi þessa frumvarps eða í heildarsamhengi þess námslánakerfis sem ætlunin er að setja upp hér. En til þess að ná þeim markmiðum sem gert er ráð fyrir í 27. og 28. gr., að hvetja til náms á ákveðnum sviðum eða hvetja fólk með tiltekna menntun til að velja sér búsetu og starfsvettvang á tilteknum svæðum landsins, tel ég að miklu eðlilegra sé og æskilegra að slíkir hvatar komi í gegnum það hvað fólki er borgað í kaup en ekki hvernig það borgar til baka námslánin sín.

Að þessu sögðu vil ég segja að í öllum aðalatriðum styð ég þetta frumvarp. Eins og áður kom fram í máli mínu þá tel ég að það leiði til þess að námslánakerfi og námsstyrkjakerfi komist í betra horf en verið hefur fram að þessu.