150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[17:07]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð hv. þingmanns, sem síðast tók til máls, um það að umræðan hér í þingsal hefur verið góð og vönduð og dregið það fram, sem kannski var augljóst strax frá upphafi, að pólitískar áherslur og pólitísk sýn eru að einhverju marki einfaldlega ólík. Viðreisn hefur tekið heils hugar undir markmið frumvarpsins og styður það; tekur undir það markmið að tryggja háskólastúdentum jöfn tækifæri til náms án tillits til efnahags og telur að það verði best gert með því að veita námsmönnum annars vegar fjárhagslega aðstoð í formi námslána og hins vegar í formi styrkja.

Það stuðningskerfi sem þetta frumvarp innleiðir, verði það að lögum, sem ég býst fastlega við að verði niðurstaðan, er kannski fremur í því formi að liðka fyrir og milda það með hvaða hætti námsmenn endurgreiða lánin sín en gerir minna fyrir námsmenn á meðan á námi stendur, þ.e. hvað varðar styrkjaþáttinn. Það er mín skoðun að fjárhagslegur stuðningur við námsmenn og námslánakerfið sé grundvallarforsenda þess að tryggja jafnrétti til náms og sé um leið verkfæri stjórnvalda til að sýna pólitískan stuðning sinn í verki og afstöðu til háskólamenntunar.

Ég hef talað um það og er dálítið upptekin af því að þetta frumvarp, sem á sér vissulega langan aðdraganda og langan meðgöngutíma, er að fæðast inn í þær aðstæður sem við nú glímum við, efnahagslegar afleiðingar Covid-19 eða aðgerða sem grípa þurfti til til þess að stemma stigu við heimsfaraldrinum. Við stöndum frammi fyrir efnahagslegu áfalli og stjórnvöld, ríkisstjórn og þing, stjórnarmeirihluti og minni hluti, eiga hér í þessum sal í samtali um aðgerðir til að bregðast við þeirri stöðu. Það er mín eindregna skoðun að liður í því samtali, til að það verði þjóðinni til góða og heilla, verði að vera framtíðarsýn, hvert við stefnum þegar þessu slökkvistarfi, við getum kallað það það, er lokið.

Mér hefði fundist kjörið, við þær aðstæður sem nú eru uppi í íslensku samfélagi, að horfa til framtíðar í þessari menntapólitík og ganga lengra, stíga fastari skref niður, hvað það varðar að fjárfesta markvisst í háskólamenntun, í rannsóknum og nýsköpun, og liður í því sé það hvernig við ætlum að búa að háskólastúdentum. Það er auðvitað stóra málið og stóra stefið hvernig við speglum þau skilaboð að nám sé full vinna og námsmenn séu í þeirri stöðu að geta tryggt sér framfærslu með námslánum og með styrkjum, að þeir séu í þeirri stöðu að þurfa ekki jafnframt að tryggja sér framfærslu með vinnu. Mér hefði fundist mikilvægt og mér hefði fundist við koma sterkari frá þessu máli með því að svara því skýrt og afdráttarlaust að við ætluðum samhliða námslánum að leggja til styrkjakerfi í þágu stúdenta til framfærslu.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara aftur inn í samtalið sem við áttum í síðustu umræðu um það hvort grunnframfærslan dugi til. Við þekkjum það samtal, við þekkjum þann veruleika, við þekkjum þær röksemdir og við vitum að námsmenn eru þeirrar skoðunar, og það hefur verið þeirra veruleiki um árabil og áratugaskeið, að svo hefur einfaldlega ekki verið. Námslánin hafa ekki dugað stúdentum til framfærslu. Ég er líka þeirrar skoðunar að sá veruleiki, niðurstaðan af því kerfi, sé ekki bara kostnaður námsmanna því að það kostar okkur sem samfélag að háskólastúdentar séu að vinna með námi, séu að hægja á námsframvindu sinni og séu í þeirri stöðu að geta ekki sett allan sinn fókus á háskólanámið.

Það er kannski það sem skilur á milli Viðreisnar a.m.k. og meiri hlutans að enda þótt við styðjum frumvarpið og teljum margt í því gott og jákvætt þá hefði, við þær aðstæður sem nú eru, verið svo kjörið tækifæri til að staldra við og horfast í augu við þá stöðu sem við erum í akkúrat í dag og lýsa því yfir fullum fetum að háskólamenntunina ætlum við að styrkja með þeim ráðum sem við höfum til þess. Það ætlum við að gera með því að auka fjárframlög inn í háskólana sjálfa. Það ætlum við að gera með því að styrkja umhverfi rannsókna á Íslandi og það ætlum við að gera með því að búa stúdentum betri efnahagslegar aðstæður til að sinna sínu námi. Það hefðum við viljað gera með því að bjóða stúdentum námsstyrki. Tillaga okkar um það atriði liggur fyrir og ég ber enn þá von í brjósti að hún geti orðið að veruleika.