150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

innflutningur dýra.

608. mál
[17:33]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að koma hingað upp í sambandi við þetta nefndarálit og þakka hv. formanni nefndarinnar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fyrir flutning þess. Ég er á þessu máli og vildi segja það hér í pontu að ég fagna því að málið tók breytingum, eins og fram kom í máli framsögumanns og eins og stendur hér, með leyfi forseta:

Í 1. gr. frumvarpsins komi fram nýir málsliðir, svohljóðandi:

„Umráðamaður dýrs, sem er flutt inn án heimildar, skal þá tafarlaust gera ráðstafanir þar að lútandi á eigin kostnað. Sá sem er ábyrgur fyrir flutningi dýrs, sem sleppur úr flutningsfari fyrir slysni, skal á sama hátt tafarlaust gera ráðstafanir þar að lútandi á eigin kostnað. Á meðan ráðstafanir eru gerðar um afdrif dýra sem eru flutt inn án heimildar eða sloppið hafa úr flutningsförum skal einangra þau í vörslu Matvælastofnunar. […] Matvælastofnun er þó heimilt að láta framkvæma áhættumat með tilliti til smitvarna áður en ákvörðun um ráðstöfun er tekin skv. 6. málsl. og getur á grundvelli þeirrar niðurstöðu heimilað dvöl á landinu að uppfylltum skilyrðum.“

Ég er algerlega sammála þessu atriði og það varð til þess að ég setti mig á málið skilyrðislaust. Í ljósi þeirrar hugsunar að við þurfum að gæta allrar varúðar í sambandi við sóttvarnir og smitvarnir, ekki síst í því ástandi sem við höfum verið að ganga í gegnum undanfarna mánuði, hefur mér verið ofarlega í huga hvað það skiptir miklu máli að fara varlega í þessum efnum og fagna ég því að þessi breyting hafi verið lögð til. Við ættum að gæta þess í öllum öðrum innflutningi, t.d. hvað varðar innflutning á hráu kjöti, að þar er verk að vinna og munum við ræða það betur síðar.

En ég fagna þessum breytingum og styð þetta mál.