150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

innflutningur dýra.

608. mál
[17:40]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra og er fullt tilefni til að lýsa yfir ánægju með hvað málið hefur tekið jákvæðum breytingum í meðförum á Alþingi. Fyrir það vil ég þakka um leið og ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir framsöguna og fyrir mjög trausta forystu fyrir atvinnuveganefnd. Þannig stóð á eftir 2. umr., þegar kom að því að ganga frá nefndaráliti, að við hv. þm. Sigurður Páll Jónsson settum nöfn okkar undir nefndarálitið með fyrirvara. Fyrirvarinn var sá að við rituðum undir nefndarálitið í trausti þess að á milli 2. og 3. umr. kæmu fyrir nefndina sérfræðingar sem gætu staðfest að með samþykkt frumvarpsins væri í engu ógnað smit- og sóttvörnum vegna innflutnings dýra. Það gekk allt saman eftir, eins og menn hafa heyrt hér. Á fund nefndarinnar á milli 2 og 3. umr. komu góðir gestir, þar á meðal yfirdýralæknir og fulltrúi frá Matvælastofnun, sem hefur veigamiklu hlutverki að gegna í þessu efni.

Frumvarpið hefur tekið breytingum sem eru mjög í þessa átt. Fyrst er að nefna að í nefndaráliti sem flestir nefndarmenn eru á, þar á meðal við hv. þm. Sigurður Páll Jónsson án fyrirvara að þessu sinni, segir, með leyfi forseta:

„Nefndin lagði í umfjöllun sinni áherslu á smit- og sóttvarnir vegna innflutnings dýra og telur með hliðsjón af þeim upplýsingum er fram komu við meðferð málsins að með samþykkt frumvarpsins sé verið að veita Matvælastofnun úrræði til að tryggja sem best sóttvarnir og lágmarka eins og kostur er smithættu við innflutning dýra til landsins.“

Herra forseti. Ég vil lýsa mikilli ánægju minni með þá áherslu sem fram kemur af hálfu atvinnuveganefndar þegar kemur að smit- og sóttvörnum. Eins og nefnt hefur verið er það atriði okkur öllum ofarlega í huga í ljósi veirufaraldursins sem heimurinn hefur verið að glíma við undanfarnar vikur og mánuði. Ég sé fyrir mér að smit- og sóttvarnir komi við sögu í fleiri málum sem bíða afgreiðslu og hafa verið til meðferðar á vettvangi hv. atvinnuveganefndar. Þess vegna er það mjög ánægjulegt að nefndin hefur í raun markað sér stefnu í því að leggja áherslu á þann þátt mála meðfram ýmsum öðrum áherslum, að sjálfsögðu.

Hér hefur verið rakið ágætlega hvaða breytingar það eru sem orðið hafa á frumvarpinu. Aðalmálið lýtur að meðferð dýra sem flutt eru inn til landsins án heimildar eða þegar þau sleppa frá flutningsförum. Það er niðurstaða nefndarinnar, eins og rakið er í nefndaráliti, að rétt sé að taka af allan vafa um að umrædd dýr skuli vera í vörslu Matvælastofnunar á meðan gerðar eru ráðstafanir um afdrif þeirra. Leggur nefndin til viðeigandi breytingu á orðalagi ákvæðisins og er hana er að finna í nefndarálitinu.

Ég skal ekki lengja umræðuna hér með því að ræða frekari breytingar. Þær eru mjög of ið sama far, eins og stendur í fornum ritum, og gera það að verkum að það er með mikilli ánægju sem ég get stutt þetta frumvarp um leið og ég ítreka þakkir mínar til samnefndarmanna fyrir ánægjulegt samstarf í þessu máli eins og svo mörgum öðrum, með sérstökum þökkum til hv. formanns nefndarinnar.