150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

innflutningur dýra.

608. mál
[17:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu en koma stuttlega inn á þetta mikilvæga mál. Þetta er mikilvægt mál, svo sannarlega, vegna þess að mikil verðmæti eru í því fólgin að við varðveitum búfjárstofna okkar sérstaklega fyrir smitsjúkdómum að utan. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að gætt sé fyllstu varúðar þegar kemur að innflutningi á dýrum og öll mistök í þeim efnum geta orðið okkur verulega dýrkeypt.

Ég vil þakka sérstaklega fyrir nefndarvinnuna og þakka fyrir að tekið var tillit til sjónarmiða fulltrúa Miðflokksins í nefndinni sem óskuðu eftir því að málið yrði frekar rætt og þá sérstaklega með tilliti til smit- og sóttvarna. Það er ánægjulegt að sjá að gott samstarf var í nefndinni um þessi mál og ber að þakka þá ágætu vinnu sem þar fór fram, og þakka ég formanni nefndarinnar sérstaklega í þeim efnum.

Það kemur hér fram að nefndin vill í þessu samhengi minna á að ákvörðun um hvort flytja skuli dýr úr landi eða lóga því byggist á sjónarmiðum um viðbrögð við smitvörnum og skuli því ekki litið á sem refsingu við brotum á lögum um innflutning dýra. Hvað varðar sjónarmið um kostnað umráðamanns mætti líta svo á að flutningsaðili sé ábyrgur fyrir flutningi á viðkomandi dýri á meðan á flutningi stendur. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Það hefur því miður gerst í Leifsstöð, þegar dýr hafa verið flutt inn, að þau hafa sloppið og það er ekki svo langt síðan það gerðist. Af stað fór umfangsmikil leit og kostnaðarsöm að viðkomandi dýri sem fannst að endingu. En það er alveg ljóst að það þarf að vera á hreinu hver á að greiða slíkan kostnað. Í þessu ákveðna tilfelli komu björgunarsveitirnar að því verkefni sem segir okkur enn og aftur hve fjölbreyttum verkefnum þær sinna og hversu mikilvægar þær eru okkur hér á Íslandi og það góða starf sem þær leggja fram. Ég fagna því þannig sérstaklega að rætt sé um kostnaðinn hér.

Ég vildi einnig koma inn á það í þessu samhengi hversu mikilvægt þetta mál er og við eigum líka að horfa til annarra þátta, þegar kemur t.d. að okkar einstaka hestakyni, íslenska hestinum, og hversu viðkvæmur hann er fyrir smitsjúkdómum að utan. Því miður eru margir hrossastofnar erlendis undirlagðir alls kyns smitsjúkdómum og hefur það valdið miklum vandræðum á meginlandinu, í Bretlandi og Svíþjóð svo að dæmi sé tekið. Í því tilfelli er afar mikilvægt að menn passi upp á búnað sem þarf að sótthreinsa sérstaklega, reiðtygi og annað slíkt. Hestamenn sem fara á sýningar erlendis þurfa að hafa allan varann á í þeim efnum.

Ég vildi bara árétta þetta hér vegna þess að það sýnir okkur hve mikið er í húfi. Við eigum þennan hreina búfjárstofn á Íslandi og ég nefndi íslenska hestinn sérstaklega, hann er ákaflega viðkvæmur fyrir þeim smitsjúkdómum sem gætu borist til landsins. Það þarf því að gæta ýtrustu varkárni í þessum efnum. En þetta er gott mál og ég þakka nefndinni fyrir gott starf og fyrir að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem Miðflokkurinn nefndi sérstaklega í þeirri vinnu. Hér er stigið mikilvægt og gott skref í að vernda verðmæti sem felast í búfjárstofnum okkar á Íslandi og þeim hreinleika sem þeim fylgir.