150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.

634. mál
[18:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Honum var tíðrætt um hugtakið mannhelgi. Að mannhelgi kæmi alltaf fyrst. Mannhelgi hlýtur að vera þannig að lífið sé heilagt og það varði friðhelgi lífsins. Við horfum á aðra manneskju eins og hún sé helgidómur sem okkur beri að virða og vernda. Mannhelgi snýr að lífinu, varðveislu þess. Mannhelgi hlýtur þá að snúa að því að lífið sé dýrmætt og að reynt sé að koma í veg fyrir það með öllum ráðum að því sé spillt.

Þá rifjast upp að fyrir rétt rúmu ári síðan voru samþykkt lög um fóstureyðingar í þessum þingsal, þar sem fóstureyðing er heimil út 22. viku meðgöngunnar þegar fóstrið hefur náð tilfinningalegum fullþroska og hefur tilfinningar, er fullvaxið og gæti lifað utan móðurkviðar ef svo færi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig samræmist það sem hv. þingmaður hefur lagt ríka áherslu á: mannhelgi alltaf fyrst, (Forseti hringir.) frumvarpi sem Vinstri grænir lögðu svo mikla áherslu á að yrði samþykkt, (Forseti hringir.) sem Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti og Framsóknarflokkurinn samþykkti: fóstureyðingalöggjöf? (Forseti hringir.) Hvernig samræmist það frumvarp því sem hv. þingmaður fór hér yfir (Gripið fram í: Það er rangt hjá þér.) er varðar mannhelgi?