150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.

634. mál
[18:16]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég ætla ekki að fara í orðaskipti við hv. þingmann um hvað stendur í Biblíunni. Ég efast ekki um ágæta þekkingu hans á henni og ætla ekki að vefengja hann hvað þar stendur, enda stæði það mér ekki nærri að gera slíkt. Ég tel hins vegar að við séum þarna að blanda hlutunum saman með því að jafna þessum tveimur málum saman að einhverju leyti, en það er ekki akkúrat það sem við eigum að gera. Við erum að skilgreina forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu og siðferðileg gildi, að þau eigi að gilda.

Þingmaðurinn talaði um fóstur í móðurkviði sem lifandi mannveru. Við töluðum um það í umræðunni í fyrra að að svo miklu leyti sem fóstur væri lífvænlegt upp á eigin spýtur og með aðstoð læknavísindanna utan móðurkviðar þá nyti það réttinda. Við ræddum það líka að við þær aðstæður sem eru nú í heilbrigðisþjónustu almennt í heiminum og íslensku heilbrigðiskerfi væri eðlilegt að miða við 22 vikur, enda væru frávik frá þeim tíma svo sárasjaldgæf að ekki væri eðlilegt að nota þau frávik til að skerða réttindi konunnar sem í hlut á. Þar komum við kannski að því sem þingmaðurinn er áreiðanlega að velta fyrir sér með mér, þ.e. þegar vegast á tvennir hagsmunir, hvora setjum við framar? Það er alltaf þannig. (Forseti hringir.)Hv. þingmaður þekkir það áreiðanlega, eins og ég, að stundum standa menn frammi fyrir slíkum valkostum, að þurfa hreinlega að meta hvorir hagsmunirnir vega þyngra. Og stundum geta þetta verið mjög sársaukafullar ákvarðanir. Það er alveg rétt hjá þingmanninum.