150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.

634. mál
[18:23]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég verð samt að benda hv. þingmanni á, því að ég nefndi SÁÁ, að SÁÁ hefur ekki haft samning við hið opinbera í mörg ár og unnið er eftir gömlum útrunnum samningi. En burt séð frá því þá er það nú einu sinni svo með glímuna við þennan blessaða fíknisjúkdóm, sem er erfiður viðureignar, og ég veit að þingmaðurinn veit það sem læknir, að árangurinn hefur verið hvað bestur þegar þeir sem fást við sjúkling á þessum sviðum hafa sjálfir átt í glímu við hann áður. Flestir meðferðarfulltrúar á þessum stöðum eru óvirkir alkóhólistar eða fíklar, og þannig hefur árangurinn náðst. Þetta er grunnur sem kemur úr AA-samtökunum. En nú hafa tímarnir breyst og það hefur orðið meiri fagmennska, sem er gleðiefni, til að mæta tímans þróun. Af því að ég minntist á fordóma áðan þá hefur mér fundist fordómar hafa aukist úti í samfélaginu vegna þess að við erum á þannig tíma í dag að við viljum að hlutirnir beri árangur mjög fljótt og örugglega en þessi sjúkdómur er ekki endilega þannig.

Mig langar að leggja það fram við þingmanninn hvort hann sé ekki sammála mér í því að það þurfi að koma skýrt fram — og þá er ég aðallega að hugsa um foreldra ungs fólks sem á í glímu við þennan sjúkdóm — að fólk sé frætt betur um eðli sjúkdómsins þannig að þolinmæði verði meiri gagnvart því að árangurinn komi ekki strax í ljós.