150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.

634. mál
[18:25]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og full ástæða er til að þakka þingmanninum, ekki bara þetta andsvar, heldur elju hans og málafylgju þegar kemur að málum þeirra sem eiga við fíknisjúkdóma að stríða. Það er mikilvægt í hverju samfélagi að það séu á hverjum tíma talsmenn þessara hópa sem láta í sér heyra og þingmaðurinn á sannarlega hrós skilið fyrir það. Auðvitað erum við að eiga við langvinnan sjúkdóm og auðvitað er ég sammála þingmanninum í því að við eigum að gera allt sem við getum til að reyna að ryðja burt fordómum og til að reyna að koma því að í hugsun okkar allra að þeir sem eru svo óheppnir að eiga við þessa sjúkdóma að stríða eru engu ómerkilegri sjúklingar en þeir sem eiga við einhverja aðra sjúkdóma að stríða. Við eigum ekki að leyfa okkur að líta þannig á að þeir geti verið einhver afgangsstærð í umræðunni eða í heilbrigðisþjónustu yfirleitt. Ég er algerlega sammála þingmanninum um það og tek undir með honum um mikilvægi þess að koma þessu að hjá ungu fólki, það hefur ekki bara gildi í því að útrýma fordómum heldur hefur það líka mikið gildi í því að ungt fólk, sem er svo ólánssamt að lenda í þessari glímu, hefur þá kannski frekar hugsunina og tækin í höndunum til að leita sér hjálpar hafi það fengið stuðning og fræðslu á fyrri stigum. Ég tek heils hugar undir þetta með þingmanninum.