150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

uppbygging og rekstur fráveitna.

776. mál
[18:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég vildi koma stuttlega inn á eitt atriði til að fá fram hvort það hafi ratað inn á borð nefndarinnar og að við því hafi verið brugðist. Í umsögn Samorku, sem eru samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, er vakin athygli á því að hafnar eru veituframkvæmdir, misjafnlega umfangsmiklar, sumar umfangsmiklar og aðrar ekki. Hjá Norðurorku t.d. eru hafnar töluvert miklar framkvæmdir en hjá minni sveitarfélögum, eins og sveitarfélaginu Vogum, voru þær minni en þó nauðsynlegar og skiluðu góðum árangri. Þessu fylgir náttúrlega kostnaður. Þess vegna er fyrirspurnin á þann veg sem Samorka leggur áherslu á í umsögn sinni, en þar segir:

„Mikilvægt er að styrkir vegna fráveituframkvæmda nái einnig til þeirra sem þegar hafa lagt af stað, svo ekki sé mismunað þeim sem lögðu af stað, þrátt fyrir að ekki væri komin niðurstaða í vinnu á vettvangi ríkisvaldsins um kostnaðarþátttöku þess í fráveituframkvæmdum.“

Fyrirspurnin til hv. þingmanns er einfaldlega þessi: Geta sveitarfélög sem farið hafa í nauðsynlegar framkvæmdir á síðustu misserum, á síðustu mánuðum, eitt, tvö, þrjú ár aftur í tímann, sótt um styrki í gegnum þá leið sem hér er verið að mæla fyrir? Þannig yrði þá dregið úr kostnaði þeirra. (Forseti hringir.) Eins og við þekkjum eru sveitarfélögin mörg hver ekki vel sett, sérstaklega eftir veirufaraldurinn, þannig að auðvitað skipta svona upphæðir máli.