150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

uppbygging og rekstur fráveitna.

776. mál
[18:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ef ég skil ráðherrann rétt er verið að miða við 1. janúar á þessu ári, eins og fram kemur í nefndaráliti. Ég hefði talið æskilegt að þetta gilti eins og eitt ár aftur í tímann. Vissulega er hluti af þessu viðbrögð við veirufaraldrinum og fjárfestingarleið til að auka og skapa atvinnu í tengslum við þessi mikilvægu verkefni. En engu að síður er þetta málefni það mikilvægt að horfa ætti til sveitarfélaga, sem hafa kannski af veikum mætti verið að reyna að bæta sín mál, eitt eða tvö ár aftur í tímann, og reyna að styrkja þau með einhverjum hætti svo þau geti hugsanlega haldið áfram. Ég hefði talið að það væri skynsamleg nálgun.

Ég vildi í síðara andsvari aðeins koma inn á þær formkröfur sem er lagt upp með, að framkvæmdir séu hluti af áætlun og sett ákveðin skilyrði. En við verðum að passa okkur á því að þessar formkröfur hindri ekki framgang þessa mikilvæga verkefnis. Talað er um heildarlausn og samþykkta áætlun til að hljóta náð til að fá hugsanlega styrk. Þá spyr maður: Hvað felst í hugtakinu heildarlausn? Er það alveg tryggt að þarna sé ekki eitthvert flækjustig (Forseti hringir.) sem geri það að verkum að verið sé að hindra þessi mikilvægu verkefni? Það þarf að vera einfalt þegar menn sækja um styrki í þetta (Forseti hringir.) því að málið snýst einfaldlega um framkvæmdir á þessu sviði.