150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

uppbygging og rekstur fráveitna.

776. mál
[18:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Fráveitumálin eru eitt mikilvægasta umhverfismál samtímans og það væri óskandi að við sýndum þeim málaflokki meiri athygli. Eins og við þekkjum hefur ofuráhersla verið hjá ríkisstjórninni á loftslagsmálin, en engu að síður er hér málaflokkur sem skiptir verulegu máli og ég hefði viljað sjá mun meiri áherslu af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og almennt í stjórnmálum á fráveitumálin. Þegar við tölum um loftslagsmálin, að við þurfum að uppfylla allar okkar skuldbindingar þar, og þó að við mengum ekki nema 0,000 eitthvað prósent af þeirri koltvísýringsmengun sem um er rætt í loftslagsmálum, þá eigum við að horfa svolítið til þeirra þjóða sem menga hvað mest, eins og Bandaríkin og Kína sem menga hátt í 50% af allri koltvísýringsmengun í heiminum. Það væri kannski nærtækara að við myndum horfa svolítið til okkar hvað varðar fráveitumálin og væri kannski ágætt að fá eitthvað af þeim fjármunum sem ríkisstjórnin hefur samþykkt í loftslagsmálin í umhverfismál sem lúta að fráveitu og fráveitumálum. Þetta er innlegg sem ég vildi koma fram með í upphafi vegna þess að þessi málaflokkur, eins og ég segi, er afar mikilvægur.

Staðreyndin er sú að við Íslendingar eigum langt í land með að innleiða skolphreinsun í samræmi við skuldbindingar sem ríkið hefur undirgengist vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta kemur fram í vandaðri skýrslu Samtaka iðnaðarins um innviðafjárfestingar frá árinu 2017. Það er því ljóst að þörf er á miklum úrbótum í þessum málum svo uppfylla megi reglugerðarkröfur.

Ófullnægjandi hreinsun skolps getur haft áhrif á umhverfið, við þekkjum það. Sem dæmi má nefna að gera má ráð fyrir að mikið magn úrgangs á borð við plast berist með fráveituvatni út í umhverfið hér á landi vegna svo til engrar hreinsunar eða lítillar hreinsunar víða um landið. Töluverð umræða hefur verið um hugsanlega skaðsemi efna í frárennsli sem ekki hefur endilega verið gefinn mikill gaumur við skolphreinsun fram að þessu. Dæmi um slík efni eru örplast og lyfjaleifar.

Það má líka gera ráð fyrir að meira svigrúm sé hjá verktökum til að standa að framkvæmdum með hagkvæmum hætti núna þegar samdráttur er í efnahagslífinu. Það hefur lengi verið kallað eftir því að ríkið styðji við fráveituframkvæmdir, t.d. með því að endurgreiða ígildi virðisaukaskatts vegna framkvæmdanna og fyrir þeirri leið hafa sveitarfélög talað sérstaklega, t.d. Sveitarfélagið Árborg og fleiri sveitarfélög. Þingmenn hér, einkum á vegum Sjálfstæðisflokksins, hafa lagt áherslu á að fara virðisaukaskattsleiðina og náðst hefur mikill árangur með henni. Ekki má gleyma því að sú leið var farin hér á árum áður. Árin 1995–2008 náðist mjög góður árangur og þess vegna spyr maður: Hvers vegna er verið að fara þá leið núna að veita þennan styrk, sem er allt of lágur, 200 millj. kr., í það mikla verkefni sem við blasir frekar en að fara virðisaukaskattsleiðina sem mörg sveitarfélög hafa talað fyrir?

Í greinargerð með lagafrumvarpinu kemur fram í umfjöllun um tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar, að í fjáraukalögum hafi verið veittar 200 millj. kr. í uppbyggingu fráveitna hjá sveitarfélögum sem hluta af framlögum í innviðafjárfestingar eða sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu og með arðbærum fjárfestingum sem auka eftirspurn eftir vinnuafli. Og þetta eru svo sannarlega arðbærar fjárfestingar þannig að þetta verkefni á mjög vel heima í því ástandi sem við höfum verið að glíma við þegar kemur að því að örva efnahagslífið og stuðla að fjárfestingum.

Samkvæmt fjáraukalögum er skilyrði framlaga til verkefnisins að það hefjist eigi síðar en 1. september 2020 og sé að fullu lokið eigi síðar en 1. apríl 2021. Bent hefur verið á ýmislegt í umsögnum, t.d. bendir Samorka á það að flestar stærri fráveituframkvæmdir séu af þeirri stærðargráðu að þær nái út fyrir þennan tímaramma, þó að þær hefjist innan hans. Því leggja samtökin til að við frumvarpið verði bætt við tímabundnu ákvæði sem eigi einungis við um úthlutun þessa árs. Það væri mikilvægt að það komi fram að nægilegt sé að fráveituframkvæmdirnar hafi átt sér stað eða hafist á árinu 2020. Mér finnst að horfa hefði átt til þessa í vinnu nefndarinnar.

Ég kom inn á það áðan varðandi styrkina að þeir yrðu afturvirkir, t.d. fyrir árið 2019, einfaldlega vegna þess að það eru sveitarfélög sem hafa af veikum mætti farið í framkvæmdir sem skipta miklu máli og gætu þá sótt um styrki og hugsanlega haldið áfram með sínar framkvæmdir. Ég hefði talið að við ættum að fara þá leið. En staðan í þessum málaflokki er alvarleg eins og upplýsingar sýna sem Samorka hefur tekið saman. Það eru einungis 23% landsmanna sem búa við skolphreinsun sem uppfyllir kröfur reglugerðar, ef höfuðborgarsvæðið er undanskilið. Þetta eru náttúrlega mjög slæmar tölur, sérstaklega þegar horft er á landsbyggðina. Við vitum að við eigum að nálgast þessi mál á grundvelli almannasjónarmiða og vernd umhverfisgæða en ekki einhvern skattstofn þegar við horfum til virðisaukans. Þess vegna finnst mér að við hefðum átt að fara þessa leið með virðisaukaskattinn og jafnvel í framhaldi að bjóða einnig upp á styrkjaaðferðina.

Í greinargerðinni kemur fram um 1. gr., varðandi styrkhlutfallið, að almennt er gengið út frá því að stuðningur ríkisins geti numið allt að 20% af heildarkostnaði framkvæmda sveitarfélaga. Það er nefnilega hugsanlegt að þetta framlag sé of lágt hjá mörgum sveitarfélögum og þá sérstaklega hjá sveitarfélögum sem eiga við fjárhagsvanda að etja vegna veirufaraldursins og á þá einkum við sveitarfélög þar sem kostnaður er sérstaklega hár miðað við íbúafjölda. Þess vegna hefði maður talið að það væri skynsamlegra að hafa hærra styrkhlutfall í þessu frumvarpi.

Ég kom líka áðan inn á það, herra forseti, að ræða skilyrði fyrir fjárstuðningi, að það sé eins og kveðið er á um í 1. gr. frumvarpsins, áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við samþykkta áætlun. Hér er mjög mikilvægt að ekki sé verið að gera of ítarlegar kröfur um hvað felist í heildarlausn og samþykktri áætlun. Svona formkröfur mega einfaldlega ekki hindra framgang þessa mikilvæga verkefnis sem er síðan búið að skapa svona ákveðinn tímaramma um að verði að eiga sér stað á þessum tímaramma, eins og segir í frumvarpinu. Það verður að passa mjög vel upp á það að þessar formkröfur hindri ekki framkvæmd verkefnisins.

Ég vildi síðan aðeins koma inn á það að ríkisvaldið á að hvetja sveitarfélögin til að vinna að þeim nærumhverfisvanda sem frárennslismálin eru og ríkisvaldið á að standa myndarlega að baki sveitarfélögunum í þessum efnum svo að þau geti einfaldlega uppfyllt lagaskyldur sínar, og auk þess að hvetja þau til að hreinsa skolp svo draga megi úr mengun vatns og sjávar. Síðan snýr þetta bara að matvælaframleiðslu, sem er okkur mjög mikilvæg, að þessir hlutir séu í lagi.

Ég held ég hafi átt hér orðastað við hæstv. umhverfisráðherra um þetta mál á fyrri stigum, sérstaklega varðandi þessa leið, að fara styrkjaleiðina í staðinn fyrir virðisaukaskattsleiðina. Þá var rökstuðningur ráðherra fyrir þessu leiðarvali sá að það styddi við stefnu um einföldun virðisaukaskattskerfisins. Að sjálfsögðu erum við í Miðflokknum fylgjandi einföldun regluverks og viljum alls ekki að flækja skattkerfið með nokkrum hætti. En engu að síður hefur þessi leið bara sýnt að hún beri góðan árangur og hefur borið góðan árangur. Þess vegna finnst manni svolítið einkennilegt að hverfa frá henni. Þetta eru lágir styrkir þegar horft er í hversu viðamikið verkefnið er og þá hefði einfaldlega bara átt að bæta því við þessa virðisaukaskattsleið, eins og ég nefndi fyrr í ræðunni. Við höfum séð hvað tölurnar eru ótrúlega háar þegar kemur að hlutfalli íbúa sem búa við ófullnægjandi skolphreinsun. Vandinn er stór og mikill og það kemur fram í skýrslu Samtaka iðnaðarins frá 2017 að það kosti u.þ.b. 50–80 milljarða að koma fráveitumálum í viðunandi horf. Þetta eru gríðarlegir fjármunir og ljóst er að sú leið sem ríkisstjórnin er að leggja hér til er algerlega bara dropi í hafið. Þess vegna segir maður að það hefði átt að fara virðisaukaskattsleiðina einnig og bæta síðan þessu ofan á.

Ég verð að segja að lokum í þessari umræðu, ég ætla ekki að hafa þetta lengra, herra forseti, að þetta er málaflokkur sem skiptir okkur verulegu máli. Hann hefur ekki fengið nægilega athygli að mínum dómi. Athyglin hér á Íslandi er öll á loftslagsmálum í dag og þess vegna er brýnt að við förum að vekja athygli á þessu máli. Þetta eru smámunir, 200 milljónir, í samanburði við það sem verið er að gera í loftslagsmálum hér á landi. Ríkisstjórnin leggur á kolefnisskatt á alla landsmenn sem skilar hátt í 6 milljörðum kr. á ári, hækkar bensínlítrann og dísillítrann um 12–14 kr. Fólk munar um það og fólk á landsbyggðinni sérstaklega. Og svo er ekkert hægt að segja til um árangurinn. Miðflokkurinn hefur spurt sérstaklega um það og spurt umhverfisráðherra um árangurinn af þessari skattheimtu, eins og með kolefnisskattinn. Svörin hafa verið á þann veg að ekki sé hægt að segja til um hver árangurinn er. Það er náttúrlega bara mikið umhugsunarefni að leggja skatta á almenning með þeim hætti að ekkert er hægt að segja til um árangurinn. Það væri nú aldeilis árangur í fráveitumálum landsins ef hægt væri að setja 5–6 milljarða á hverju ári í þann málaflokk. Við yrðum sannarlega fljót að sjá árangur af því að setja í fráveitumálin svo háar upphæðir. Þarna þurfa menn að taka sér tak þegar kemur að því að forgangsraða í umhverfismálum. Þetta er málefni sem hefur legið á okkur í mörg ár.

Við stöndum okkur ekki nægilega vel, eins og ég nefndi hér í upphafi, t.d. þegar kemur að þeim kröfum sem við þurfum að undirgangast vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Við erum ekki að standa okkur í þeim efnum hvað varðar skuldbindingar okkar. Þetta er málaflokkur sem þarf að setja miklu meiri fjármuni í heldur en sem nemur þessum 200 milljónum sem verið er að ræða um í stóra samhenginu, sem er á bilinu 50–80 milljarðar. Ég vil því hvetja ríkisstjórnina til þess að íhuga það alvarlega að nýta eitthvað af þeim skattstofnum sem er verið að leggja á almenning í loftslagsmálum í málefni sem við sjáum áþreifanlegan árangur af og það er t.d. í fráveitumálum. Að þessu sögðu hef ég lokið máli mínu, herra forseti.