150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

922. mál
[19:17]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, oft kallað lokunarstyrkir og í þessu tilfelli viðbótarlokunarstyrkir.

Á grundvelli laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, geta þeir rekstraraðilar, einstaklingar eða lögaðilar, sem þurftu að loka eða láta af starfsemi vegna sóttvarnaráðstafana á gildistíma auglýsingar nr. 243/2020 um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, samanber auglýsingu nr. 309/2020, sótt um sérstakan lokunarstyrk að nánari skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt 5. gr. laganna skal fjárhæð lokunarstyrks vera jafn há rekstrarkostnaði á því tímabili sem skylt var að loka samkomustað eða láta af starfsemi eða þjónustu, þ.e. á tímabilinu 24. mars til 4. maí 2020, þó þannig að hann nemi að hámarki 800 þús. kr. á hvern launamann eða að hámarki 2,4 millj. kr. á hvern rekstraraðila.

Við setningu laganna hafði ný auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 360/2020, tekið gildi, þar sem tilteknum aðilum var gert að hafa lokað umfram gildistíma auglýsingar nr. 243/2020. Auglýsing nr. 360/2020 kom í stað þeirrar auglýsingar, tók gildi 4. maí 2020 og hafði gildistíma til 1. júní 2020. Í henni kom fram að stjórnvöld myndu endurmeta þörf á takmörkunum samkvæmt auglýsingunni eftir því sem efni stæðu til.

Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarpið, sem varð að lögum nr. 38/2020, var tekið fram að nýja auglýsingin hlyti að kalla á endurskoðun á hámarksfjárhæðum lokunarstyrks sem stæði til boða aðilum sem ljóst væri að þyrftu að hafa lokað áfram og að meiri hlutinn vænti þess að nefndin ætti samráð við ráðuneytið um slíka breytingu þegar ljóst lægi fyrir hve lengi framlenging fyrirmæla um lokun myndi vara.

Drög að frumvarpinu sem hér er rætt um voru unnin í fjármála- og efnahagsráðuneyti, þar sem samráð var haft við heilbrigðisráðuneyti og Skattinn. Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við þá aðila sem þurftu að hafa lokað lengur en ráð var fyrir gert við framlagningu frumvarpsins sem varð að lögum nr. 38/2020.

Samkvæmt 5. gr. auglýsingar nr. 360/2020 var skemmtistöðum, krám og spilasölum gert að hafa áfram lokað auk þess sem sundlaugar skyldu vera lokaðar almenningi og eins húsnæði líkamsræktarstöðva. Með auglýsingu nr. 445 um breytingu á auglýsingu nr. 360 sem margoft hefur verið nefnd, var sund- og baðstöðum heimilað að hafa opið að nýju frá og með 18. maí, að virtum tilteknum skilyrðum um fjölda gesta. Sund- og baðstöðum var því gert að hafa lokað samtals í 55 daga. Auglýsing nr. 360 var felld úr gildi frá og með 25. maí 2020 með nýrri auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, nr. 470, og var fyrirmælum um lokun skemmtistaða, kráa, spilasala og húsnæðis líkamsræktarstöðva aflétt frá og með gildistöku hennar. Var þeim stöðum því gert að hafa lokað samtals í 62 daga.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á II. kafla laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Lagt er til að þeir rekstraraðilar sem þurftu að sæta lokunum í starfsemi sinni á tímabilinu frá 4. maí 2020 til 18. eða 25. maí 2020 geti sótt um viðbótarlokunarstyrk úr ríkissjóði.

Fjárhæðir viðbótarlokunarstyrkja samkvæmt frumvarpinu lúta sömu sjónarmiðum og eiga við um lokunarstyrki samkvæmt lögunum að teknu tilliti til þess dagafjölda sem fyrirmæli um lokun náðu til. Lokunarstyrkur á grundvelli nýs 2. málsliðar 1. töluliðar 4. gr. kemur til viðbótar lokunastyrk á grundvelli gildandi 1. töluliðar 4. gr. og hefur ekki áhrif á fjárhæð hans. Þá er lagt til að umsóknarfrestur um lokunarstyrki samkvæmt þessu frumvarpi verði til 1. október 2020.

Kostnaðarmat vegna frumvarpsins sem varð að lögum nr. 38/2020 gerði ráð fyrir ákveðnu svigrúmi vegna óvissu um umfang styrkjanna. Að óbreyttu er ekki talið að þeir viðbótarstyrkir sem lagðir eru til í þessu frumvarpi kalli á umframfjárheimildir.

Að lokum er rétt að benda á varðandi þær fjárhæðir sem er um að ræða að gert er ráð fyrir því að viðbótarlokunarstyrkir geti numið allt að 400.000 kr. á hvern launamann, þó að hámarki 1,2 milljónir fyrir hvern rekstraraðila sem þurfti að hafa lokað á tímabilinu 4.–24. maí. Sömu tölur eru 270.000 kr. fyrir hvern launamann hjá rekstraraðila sem þurfti að hafa lokað frá 4.–17. maí, þó að hámarki 810.000 kr. á hvern rekstraraðila.

Herra forseti. Ég mælist til þess að frumvarpið eftir umræðu hér fari til 2. umr.