150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

922. mál
[19:24]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég fagna mjög þessu frumvarpi og því frumkvæði hv. efnahags- og viðskiptanefndar að hafa gripið til frekari aðgerða. Það á reyndar ekki bara við í þessum efnum heldur finnst mér bæði sú hv. þingnefnd og þingheimur allur í raun passa það að fylgjast vel með og grípa til þeirra aðgerða sem þarf hverju sinni eftir því sem fram vindur. Mig langaði að nýta þetta tækifæri og spyrja hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar aðeins út í það að hér er rætt annars vegar um styrki til launafólks og hins vegar styrki til rekstraraðila. Komu þau tilvik upp í umræðu nefndarinnar þar sem þetta tvennt fer saman, þ.e. þar sem fólk rekur fyrirtæki á eigin kennitölu? Það á raunar ekki bara við um lokunarstyrki heldur er þetta hópur sem einhvern veginn hefur fallið milli skips og bryggju í einhverjum aðgerðum. Þetta er ekki endilega skynsamlegasta rekstrarformið en er þó til víða.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann: Var hugað sérstaklega að þessum hópi í frumvarpinu? Hvorum megin hryggjar myndi fólk í slíkum rekstri falla, er það rekstraraðilar eða launþegar? Eða hefur það yfir höfuð verið rætt?