150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

922. mál
[19:26]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg skýrt að í þeim lögum sem samþykkt voru hér og ég vitnaði til, lög nr. 38/2020, og þetta frumvarp er í rauninni breyting á þeim lögum, er skilgreining á orðinu rekstraraðili. Það nær til einstaklinga sem stunda sjálfstæðan rekstur á eigin kennitölu, nær til hlutafélaga, einkahlutafélaga o.s.frv., að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem þar koma fram. Einstaklingur sem stundaði atvinnurekstur og þurfti að sæta því að láta af starfsemi sinni af sóttvarnaástæðum samkvæmt ákvörðun heilbrigðisyfirvalda á rétt á styrk allt þetta tímabil, að hámarki 2,4 milljónir fyrir fyrra tímabil og að hámarki 1,2 milljónir fyrir síðara tímabilið sem frumvarpið fjallar um.