150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Síðustu vikur hafa örfá Covid-19 smit greinst og við erum auðvitað öll þakklát sérfræðingum okkar fyrir góðan árangur og eigum sömuleiðis að vera þakklát almenningi sem lagði mikið á sig til að hefta útbreiðslu faraldursins. Þessar aðgerðir og takmarkanir voru auðvitað nauðsynlegar.

Mestu takmörkunum hefur nú verið aflétt en eftir stendur sumt, þar á meðal smitrakningarappið. Við aðrar aðstæður hefði svona app á vegum stjórnvalda sem safnar upplýsingum um ferðir einstaklinga þótt meiri háttar inngrip í friðhelgi einkalífs og vakið mikla umræðu. Þjóðin sýndi hins vegar ábyrgð og hún sýndi traust en um þriðjungur þjóðarinnar sótti þetta app sem var kynnt sem tímabundin ráðstöfun. Með því létti þjóðin vinnu smitrakningarteymis sóttvarnalæknis og ríkislögreglustjóra. Núna þegar opna á landið þá munu ferðamenn annars vegar undirgangast skimun, sem er auðvitað mikilvæg og nauðsynleg forsenda, en þeir verða líka hvattir til að sækja þetta app sem myndi þá rekja ferðir þeirra hérlendis. Þjóðin er sömuleiðis hvatt til að halda áfram að nota appið.

Hér finnst mér þurfa að staldra aðeins við. Ég minni á það að takmarkanir á réttindum fólks og inngrip í einkalíf þess þarf að rökstyðja og það þarf að nálgast það sem frávik. Er virkilega nauðsynlegt af stjórnvöldum að notast við rakningarforrit þegar staðan er sú að smit eru lítil sem engin í samfélaginu? Erum við þá ekki farin að nálgast grundvallarréttindi eins og friðhelgi einkalífs af töluverðri léttúð? Mér finnst vanta samtalið hérna. Ættu stjórnvöld ekki að sýna sömu ábyrgð og almenningur gerði? Þrátt fyrir tvöfalt samþykki, að notandi þurfi að samþykkja appið og síðan að gefa samþykki fyrir notkun upplýsinganna, stendur eftir að aðgerðin er beinlínis hönnuð til að safna upplýsingum um fólk til að afhenda stjórnvöldum þær. Á meðan appið er í símanum (Forseti hringir.) eru ferðir fólks raktar.

Í því ljósi spyr ég hvort stjórnvöld ættu ekki að leiða samtal um það hvenær þau sjái eiginlega fyrir sér að þessari ráðstöfun linni.