150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hér á eftir greiðum við atkvæði um varnir gegn hagsmunaárekstrum æðstu stjórnenda ríkisins. Málið er framfaraskref og margt gott í frumvarpinu að finna en þar er ekkert sjálfstætt eftirlit með því að reglunum verði fylgt. Ekki nóg með það, það er nákvæmlega ekkert eftirlit með því að ráðherrar fylgi reglum um skráningu hagsmuna sinna. Hvers vegna ekki? Skýrustu svörin sem ég hef heyrt eru að ekki hafi náðst samstaða í meiri hlutanum um sjálfstætt eftirlit, nú eða eftirlit yfir höfuð, gagnvart því hvernig ráðherrar sinna vörnum sínum gegn hagsmunaárekstrum. Meiri hlutinn náði þó samstöðu fyrir helgi þegar hann lýsti því yfir að tilgangslaust væri að halda áfram að kanna hagsmunatengsl hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, vegna tengsla hans við sjávarútvegsfyrirtækið Samherja. Um það náðist samstaða í meiri hlutanum. Þessi samstaða þýðir að ráðherrann, sem sagði á opnum fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að hann hefði ekkert að fela í þessu máli, getur falið sig á bak við það að meiri hluti nefndarinnar hafi ákveðið að ekkert sé að finna, ekkert að sjá hér eins og sagt er. Meiri hlutinn rannsakar sem sagt sjálfan sig og kemst að því að ekkert sé athugavert við stjórnarhætti ráðherra síns. Það er auðvitað ekki mjög trúverðug niðurstaða, það verður að segjast eins og er. Sú málsmeðferð meiri hlutans setur einnig hættulegt fordæmi gagnvart skýlausum rétti minni hlutans til að hafa eftirlit með verklagi og störfum ráðherra sem sitja einmitt í skjóli meiri hlutans. Hreinlegast hefði verið fyrir meiri hlutann að afgreiða málið með skýrslu að aflokinni gagnaöflun og gestakomum til að ræða mætti málið í þingsal en meiri hlutinn hefur ekki minna að fela en svo að hann getur ekki hugsað sér að ræða þetta mikilvæga mál í þingsal.