150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Haft er eftir formanni Landssambands lögreglumanna í fjölmiðlum í morgun að kjaraviðræður lögreglumanna við íslenska ríkið gangi mjög hægt og í raun ekki neitt. Hann segir að viðræðurnar séu í raun í algjörri pattstöðu og bætir við að þolinmæði lögreglumanna sé á þrotum. Í fréttinni kemur einnig fram að eitt af því sem viðræðurnar strandi á sé að lögreglumenn fái ekki útkljáðar bókanir frá síðustu kjarasamningum. Þar er til að mynda bókun um svokallað vopnaálag lögreglumanna sem þeir fá enga úrlausn í þrátt fyrir að harkan í afbrotum hafi sífellt aukist og lögreglumenn megi búast við því hvenær sem er, jafnvel einir á ferð, að þurfa að takast á við harðsvíraða afbrotamenn, eins og hefur reyndar margoft komið fram í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra á umliðnum árum um aukna hörku í mörgum brotaflokkum. Ríkið hefur ekki staðið við þessa bókun þrátt fyrir að hún hafi verið hluti af samningi við lögreglumenn. Að stærstum hluta virðast viðræðurnar stranda á þessu. Í hvaða stöðu eru lögreglumenn sem hafa ekki verkfallsrétt og geta ekki beitt neinum ráðum til að fá kjör sín leiðrétt? Þeir verða í raun að láta þvermóðsku stjórnvalda og viðsemjenda sinna yfir sig ganga og vonast eftir góðu veðri.

Herra forseti. Staðreyndin er auðvitað sú að kjör lögreglumanna hafa smám saman færst langt frá sambærilegum stéttum allar götur frá því að þeir afsöluðu sér verkfallsréttinum gegn því að laun þeirra fylgdu ákveðnum viðmiðunarstéttum. Ég lagði fram frumvarp í haust um að færa lögreglumönnum verkfallsréttinn að nýju. Margir þingmenn í þessum sal studdu sambærilegt frumvarp fyrir nokkrum árum, skömmu eftir hrun, og töluðu fyrir því hér úr þessum stól, þingmenn sem hér sitja enn og sitja sumir núna í stjórn. Hvar er stuðningur þeirra við lögreglumenn núna?