150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú hillir undir afgreiðslu samgönguáætlunar. Í henni eru margar stórar og mikilvægar framkvæmdir undir sem líklegar eru til að skapa ný tækifæri í íslensku samfélagi og stuðla að allra handa nýsköpun. Þar á meðal er samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins sem fær staðfestingu hér á Alþingi þegar samgönguáætlun verður samþykkt með fjárlögum hverju sinni og með samþykkt frumvarps um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, en 2. umr. um það frumvarp er á dagskrá Alþingis í dag. Stóru tímamótin með sáttmálanum eru að með honum sameinast ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um samgönguskipulag fyrir alla íbúa á höfuðborgarsvæðinu, hvaða ferðamáta sem þeir kjósa. Það er ekki bara samkomulag um skipulag heldur líka um fjármögnun, uppbyggingu mannvirkja og almenningssamgöngur til 15 ára.

Samvinna sveitarfélaganna um skipulag umferðar um svæðið í heild er risastórt skref og aðkoma ríkisins tryggir samspil við umferð að og frá svæðinu í flugi, um hafnir og stofnbrautir, m.a. með tengingu við skipulag Sundabrautar en gert er ráð fyrir að tillögur um legu hennar liggi fyrir í lok sumars. Í samgöngusáttmálanum er gert ráð fyrir umtalsverðum framkvæmdum við innviði allra samgangna á höfuðborgarsvæðinu, stofnbrautir, sérakreinar fyrir forgangsumferð, göngu- og hjólastíga, auk þess sem átak verður gert í umferðarstýringu. Greiningarvinna vegna útboðs á ljósastýringu er hafin en betri umferðarstýring getur haft veruleg áhrif á umferðarflæði.

Tilgangur samgöngusáttmálans er að flýta framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. Uppfærð framkvæmdaáætlun samgöngusáttmálans verður áfram hluti af samgönguáætlun (Forseti hringir.) og þannig er aðkoma Alþingis tryggð. Virðing allra samningsaðila fyrir samkomulaginu og heilindi í vinnu að framgangi þess er svo lykill að árangri.