150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

innflutningur dýra.

608. mál
[14:30]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur var með fyrirvara á þessu máli milli 1. og 2. umr. en er nú skilyrðislaust með á málinu ásamt hv. þm. Ólafi Ísleifssyni. Málið tók breytingum í sambandi við smitvarnir þar sem lagt er til að kveðið verði skýrar á um starfsemi sóttvarna- og einangrunarstöðva. Það var líka lagt til að heimildir Matvælastofnunar verði skýrðar nánar í þeim tilfellum þegar um alvarlega smitsjúkdóma er að ræða, óeðlileg eða óútskýrð áföll eða ef rökstuddur grunur er um smitsjúkdóm í sóttvarna- eða einangrunarstöð. Þetta er því hið besta mál eins og það er lagt fram í dag og mun ég greiða atkvæði með því.