150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[14:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Orkusjóður er mjög mikilvægur sjóður fyrir uppbyggingu orkuinnviða á Íslandi. Markmiðin voru fyrst um rafmagn og hita og nú á að fara að útvíkka hlutverk þessa mikilvæga sjóðs svo það nái til sjálfbærni. En það sem vantar er það sem ég nefndi ítrekað við hv. framsögumann málsins, Njál Trausta Friðbertsson, í nefndinni, að hafið sé yfir vafa eins mikið og hægt er að ráðherra geti misnotað þetta vald. Það er hann sem samþykkir á endanum tilnefningar. Það eina sem ég lagði til var að við færum sömu leið og við fórum fyrir sex vikum varðandi Matvælasjóð. Skipað yrði fagráð, ekki bara þessir þrír aðilar sem ráðherra skipar sjálfur, ekki bara þannig að þeir geti leitað ráða einhvers staðar, nei, að það sé skylda, eins og við sögðum fyrir sex vikum, að skipa fagráð, skipað sjö aðilum úr háskólasamfélaginu, nýsköpunargeiranum, iðnaðinum, ekki bara að þessir þrír aðilar ráði sem ráðherra skipar og samþykkir svo.

Við samþykktum um Matvælasjóð að skylt yrði að skipa sjö manna fagráð til að styðja fjögurra manna stjórn, ekki bara eins og er með Orkusjóð núna, þegar ráðherra á að skipa þrjá menn. Nei, skipað af hagsmunaaðilum í greininni líka. Ráðherra hafði enn þá minna vald þar en samt ákváðum við að setja inn fagráð til að styðja það, styðja að fleiri sjónarmið kæmust að og draga úr freistnivanda. En Matvælasjóður, sem við gerðum allt það fyrir, hefur það hlutverk að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla í landbúnaði og sjávarútvegi á meðan Orkusjóður hefur miklu víðtækara, stærra og mikilvægara hlutverk fyrir hagsmuni landsins. (Forseti hringir.)

Breytingartillaga mín liggur fyrir. Þegar málið verður tekið inn til nefndar milli 2. og 3. umr., þurfum við ekki að skoða þetta betur, hv. framsögumaður málsins, Njáll Trausti Friðbertsson?