150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek svo sannarlega undir með hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni um mikilvægi Orkusjóðs í 50 ár. Varðandi orkuskipti og hitaveituvæðingu landsins: Þetta er ein helsta auðlind okkar og þar hefur Orkusjóður gegnt gríðarlega stóru hlutverki. Ef ég man rétt þá er það yfir 100 milljarða sparnaður fyrir íslenskt þjóðarbú á ári að hafa hitaveitu eins og við rekum hana í dag í stað þess að nota ýmsa aðra orkugjafa til að hita upp húsnæði á Ísland. Það er gríðarlega stórt og mikilvægt verkefni.

Eins og ég kom inn á rétt áðan þegar ég flutti álit meiri hluta nefndarinnar er kveðið á um að ráðgjafarnefndinni eða stjórninni sé skylt að leita umsagnar Orkustofnunar og annarra sérfræðinga eftir því sem við á áður en gerðar eru tillögur til ráðherra um styrki eða lánveitingar úr Orkusjóði eða niðurfellingu á endurgreiðslu lána. Einnig er tekið fram í álitinu að jafnframt starfar ráðgjafarnefndin samkvæmt verklagsreglum nr. 654, með auglýsingu í Stjórnartíðindum frá 29. júní 2016, en reglurnar eru settar á grundvelli fyrrgreindrar reglugerðar. Þar segir að þeir sem sitji í ráðgjafarnefnd skuli gæta að hæfisreglum við ákvarðanatöku og að við mat á vanhæfi skuli hafa til hliðsjónar ákvæði stjórnsýslulaga.

Eins og kemur fram í meirihlutaálitinu telur meiri hlutinn, með vísan til þess að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki sé að öðru leyti gert ráð fyrir breytingu á fyrirkomulagi á skipun í stjórn, að ekki sé þörf á að leggja til breytingar þar á og áréttar meiri hlutinn að í því felst sá skilningur að í reglugerð sé áfram kveðið á um skyldu stjórnar til að leita umsagnar Orkustofnunar og annarra sérfræðinga. Jafnframt sé skýrt tekið fram að við skipun stjórnar sé farið að hæfisreglum stjórnsýslulaga og á sama hátt sé gætt að ákvæðum stjórnsýslulaga við mat á mögulegu vanhæfi stjórnarmanns við meðferð og afgreiðslu mála. Þannig að það er álit meiri hluta nefndarinnar (Forseti hringir.) að hér sé nægilega tekið á málum sem snúa að þeim þáttum.