150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[15:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. framsögumaður málsins, Njáll Trausti Friðbertsson, segir að það sé mat meiri hluta nefndarinnar, og það er í nefndarálitinu og því greinilega mat nefndarinnar, að þau almennu hæfisskilyrði sem komu fram í nefndinni séu bara það, viðkomandi sé með hreint sakavottorð og svona. Það heldur ekki neitt. Og það þurfi að leita álits Orkustofnunar, eins aðila. Hjá Matvælasjóði, eins og við fórum yfir, er það ekki bara þannig að ráðherra skipi þrjá aðila eins og hjá Orkusjóði núna, sem hann ræður alla sjálfur, og samþykkir síðan tillögur frá þeim eða hafnar. Nei, hjá Matvælasjóði eru fjórir aðilar skipaðir í stjórn, þar af tveir frá hagsmunaðilum, og svo sjö manna undirnefnd, fagráð sem skal skipa og það verður að taka tillit til sjónarmiða þess.

Hv. þingmaður er ekki að plata neinn ef hann heldur því fram að þetta sé ekki sterkari umgjörð til að tryggja faglegri sjónarmið, betri nýsköpunarsjónarmið, að betur verði farið með almannafé þegar umgjörðin er eins og við samþykktum hana fyrir sex vikum hjá Matvælasjóði. Það veit hv. framsögumaður málsins, Njáll Trausti Friðbertsson. Það er að sjálfsögðu hægt að hafa umgjörðina svoleiðis en ef hann vill það ekki og hann hefur sannfært meiri hluta nefndarinnar um að gera það ekki, sem sannfærir síðan meiri hlutann á þinginu um að gera það ekki, þá dregur hann allt það fólk með sér inn í það.

Nú erum við að fara í sjálfbærnina, vindmyllur og svoleiðis, mögulega smávirkjanir. Hvað gerist ef síðan er úthlutað til félaga sem eru einhvern veginn háð eða tengd ráðherrum í hans hans, tengd þingflokki hans, félög tengd stjórnmálaflokkum í þessari stjórn fara að fá úthlutað úr sjóðnum? Menn fara að segja: Þetta er ekki gott.

Eigum við ekki frekar að undirbyggja þetta með faglegum sjónarmiðum með sjö manna fagráði eins og við gerðum með Matvælasjóð sem tryggir það og heldur vel utan um það að ráðherrar freistist ekki til að misfara með almannafé þegar kemur að Orkusjóði og skemma orðspor sjóðsins eftir alla þessa góðu og frábæru vegferð? Við getum gert það. Það væri faglegt að gera það. Það væri skynsamlegt að gera það. Það væri gott fyrir okkur öll að gera það (Forseti hringir.) og við höfum tækifæri til þess milli 2. og 3. umr.