150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[16:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Mig langar að spyrja hv. framsögumann, Ásmund Friðriksson: Telur hann rétt og það nægja, eins og segir í nefndarálitinu, að sjá eigi til þess að aðgengi að ferðamannastöðum og -mannvirkjum og öðru sé fyrir alla? Í nefndarálitinu segir að við mat á umsóknum úr sjóðnum eigi að líta til algildrar hönnunar og svo segir síðar: „Að mati meiri hlutans er rétt að taka tillit til sjónarmiða um algilda hönnun …“

Við vitum að eins og staðan er í dag þá er ekki tekið tillit til algildrar hönnunar. Ekki er litið til hennar í öllum tilfellum þegar um mannvirki er að ræða. Þar af leiðandi segir sig sjálft að það þarf eiginlega að ítreka það í lögum. Síðan sé ég að talað er um að ferðamannaleiðir geti verið gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir. Þær geta líka verið hjólastólaleiðir. Af hverju eru þær ekki þarna, a.m.k. þar sem því verður við komið? Við verðum að reyna að festa þetta í kerfinu. Hv. framsögumaður hlýtur að vera sammála mér og hann veit og þekkir til þess að því miður eru þær reglur ítrekað brotnar í mannvirkjagerð. Við verðum einhvern veginn að reyna að negla þetta og festa þannig að ekki fari á milli mála þegar verið er að hanna mannvirki árið 2020 að allir geti notað þau, líka þeir sem eru í hjólastólum og hafa hingað til ekki getað notað þau.