150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[16:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Eftir andsvör við hv. framsögumann er ekki miklu við að bæta, en þó er alltaf hægt að bæta aðeins við vegna þess að við vitum jú að meðal bæði fatlaðra og ófatlaðra eru ofurhugar sem láta engar hindranir stöðva sig. En það eru líka einstaklingar sem ráða því miður ekki við allar hindranir. Þess vegna ber okkur að sjá til þess þar sem því verður við komið að ekki séu bara til reiðhjólaleiðir heldur einnig hjólastólaleiðir. Oft er þörf en nú er nauðsyn á því að farið sé að lögum um mannvirki, nr. 160/2010, þar sem m.a. er fjallað um algilda hönnun. Því miður þekkjum við það af reynslunni að það er ekki gert. Og það sem er kannski sorglegast í því er að oft og tíðum er um ný mannvirki að ræða sem ekki standast þessa kröfu og menn yppa bara öxlum. Ekki er tekið á því, því er ekki breytt eða séð til þess að farið sé að lögum og reglum. Því miður er það, og hefur verið, frekar regla en undantekning að hunsa þau lög. Þess vegna ber okkur að sjá til þess að allir geti nýtt sér leiðir á ferðamannastöðum og aðbúnað þar, hvernig sem heilsa þeirra er.

Ég hef orðið var við annað svolítið skrýtið og það er það sorglegasta af öllu sorglegu. Það er þegar er farið eftir reglum og vilji er til þess að gera hlutina rétt og vel og þannig úr garði að talið er að fatlaðir geti nýtt sér aðstöðuna, en gleymst hefur að hafa fatlaðan einstakling í hjólastól með þannig hlutirnir séu rétt hannaðir, t.d. varðandi hæð, breidd og bratta á rampi fyrir hjólastóla og annað. Það hefur því miður gerst og það er eiginlega það sorglegasta af öllu sorglegu þegar virkilega er verið að reyna að koma hlutunum þannig fyrir að þeir sem á þurfa að halda geti nýtt sér þá, en þeir geta það ekki vegna þess að þeir eru rangt uppsettir.

Í nefndarálitinu er bent á vegagerð og uppbyggingu vega, sem er kannski ekki hluti af þessu máli, en nefndarmenn benda á að það eigi auðvitað að vera þar undir líka. En við höfum áttað okkur á því að hér á Íslandi geta því miður ekki allir komist t.d. á hálendið eða aðra áhugaverða staði. Slíkt er yfirleitt ekki nema fyrir útvalda á sérútbúnum bílum. Svo er því miður annað sem við þurfum að taka á, þ.e. að gera þannig vegi að þeir sem eru á bílum sem eru sérútbúnir fyrir fatlaða geti líka komist upp á hálendið, komist á ferðamannastaði og þá áhugaverðu staði sem þar eru, hvort sem það er til að njóta útiveru eða hreinlega bara til þess að komast í veiðiaðstöðu, sem er mjög góð á mörgum stöðum á hálendinu.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég trúi því og treysti að séð verði til þess að ekkert verði gefið eftir í því að tryggja að öll uppbygging á ferðamannastöðum verði fyrir alla sem þangað vilja koma, óháð því hvernig heilsa fólks er.