150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[16:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er hið besta mál. Það kostar að vísu 1,5 milljarða, sem er svolítið brött fjárhæð. En ef það kemur fólki af stað í að ferðast um landið í miklum mæli er það mjög gott. Það vantar að vísu upp á, ef við hefðum tekið inn börn frá 12 ára aldri, sem oft þurfa að greiða fullt gjald inn á staði, hefði það kostað 40 milljónir á hvern árgang. Það væri ekki mikið sem bættist við, innan við 10% hefðu bæst ofan á með því að gera það. Það hefði mátt gera.

Mig langar að spyrja um persónuvernd. Varðandi rakningarappið, sem stjórnvöld fóru af stað með til að aðstoða við að rekja smit, þá pössuðu menn sig virkilega vel. Þeir fóru þá leiðina að vera með það sem menn kalla „open source“, eða opinn hugbúnað, þannig að hver sem er getur lesið kóðann og passað upp á að persónuvernd sé vel tryggð. Hvernig er því háttað með það app sem nota á í þessari ferðagjöf?