150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[16:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Málið er í sjálfu sér svo sem ágætt en einhvers staðar í ferlinu breyttist það sem við erum að tala um hér úr því að vera ferðaávísun í að vera gjöf. Ég er alinn upp við að segja takk þótt það takist ekki alltaf og mig langar að vita, herra forseti: Hverjum á ég að þakka fyrir þessa gjöf? Hver er gefandinn? Ætlar ríkisstjórnin öll að skrifa undir eins og Trump gerir fyrir vestan og senda okkur hana heim? Hverjum á ég að þakka þennan heiður sem er svo táknrænn að hann sést varla? Ég spyr líka, fyrst menn voru að ómaka sig við þetta: Hvers vegna var þá þessi gjöf, sem mig langar að vita hver gefur, ekki rausnarlegri en 5.000 kr.? Menn kaupa sér ekki mikið fyrir 5.000 kr. á Íslandi, þeir sem lítið hafa, þannig að mig langar að vita það líka.