150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram í áliti meiri hluta atvinnuveganefndar, og ég kom inn á það áðan í ræðu minni, að við afmörkun þeirra fyrirtækja sem heimiluð er þátttaka í verkefninu er gert ráð fyrir að hægt sé að byggja hlutlægan mælikvarða varðandi útgáfu opinberra leyfa til starfsemi. Það er akkúrat punkturinn, opinber leyfi sem tengjast þessu. Það kemur fram í 1. gr. frumvarpsins hvað fellur undir það. Það hefði þess vegna verið hægt að hafa það enn þá opnara, en afmarka þurfti einhvers staðar. Þetta er hluti, þetta eru ákveðin leyfi eins og ég kom inn á áðan, og hef litlu við það að bæta. Þannig stendur málið. Það sem við erum að tala um að falli undir eru útgefin leyfi sem tengjast ferðaþjónustu á Íslandi.