150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:05]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um það frumvarp sem hér liggur fyrir og er til umræðu og sagt er vera um ferðagjöf. Ég verð að viðurkenna að ég á svolítið erfitt með að taka mér það orð í munn, mér finnst það svo tilgerðarlegt og hallærislegt að ég get eiginlega varla orða bundist.

En efni frumvarpsins er að lagt er til að stjórnvöldum verði heimilað að gefa út ferðaávísun að fjárhæð 5.000 kr. til einstaklinga sem fæddir eru á árinu 2002 eða fyrr og hafa íslenska kennitölu og lögheimili á Íslandi. Ferðaávísunina verði hægt að nýta til greiðslu hjá fyrirtækjum með starfsstöð á Íslandi til samræmis við tilgreinda afmörkun í frumvarpinu. Frumvarpið er lagt upp með þeim hætti að það sé liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að efla efnahagskerfið og draga úr neikvæðum áhrifum á atvinnulífið í kjölfar veirufaraldursins og er ætlað að hvetja Íslendinga til ferðalaga innan lands og veita efnahagslífinu, og þá einkum ferðaþjónustunni, viðspyrnu.

Minni hlutinn styður meginmarkmið frumvarpsins, eins og þau hafa verið rakin hér, en telur hins vegar uppi áleitnar spurningar um ýmsa þætti frumvarpsins, svo sem um gildissvið og afmörkun, og hafa þegar nokkrir hv. þingmenn vikið að þeim þáttum.

Hvað varðar gildissvið frumvarpsins virðist skorta á að gætt sé jafnræðissjónarmiða, samanber dæmið um að heimilt verði að ráðstafa ávísun til leigu á bifreið en ekki tjaldi. Ég ætla að leyfa mér að segja vegna viðhorfs um að það skorti á jafnræðissjónarmið, ég hef fundið fyrir því á nefndarfundum í atvinnuveganefnd, til að mynda hjá hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, að þá var ég að vona í lengstu lög að meiri hlutinn myndi lagfæra frumvarpið að því leyti. Þá taka aldursmörkin, sem sett eru við 18 ára aldur, ekki tillit til barnafjölskyldna. Jafnframt lýsir minni hlutinn því í minnihlutaáliti sínu að líklegt sé að ýmsir þjóðfélagshópar muni vart geta fært sér umræddar ferðaávísanir í nyt vegna heilsufars eða fjárhagslegrar stöðu.

Eins og ég gat um í upphafi væri að mati minni hlutans réttara og eðlilegra að kenna málið við ferðaávísun frekar en ferðagjöf. Þannig var málið lagt fram upphaflega, framan af hét það frumvarp um ferðaávísun, en fyrir tilstilli einhverja krafta sem mér eru ekki sýnilegir eða skiljanlegir að öllu leyti, breyttist málið og varð að frumvarpi um ferðagjöf.

Minni hlutinn bendir í nefndaráliti sínu á það sem alkunna er, að ferðaþjónustan hefur á umliðnum árum skilað þjóðarbúinu miklum tekjum, fjölbreyttum og mörgum vel launuðum störfum, erlendum gjaldeyri í stríðum straumum, auk þess sem starfsemi ferðaþjónustunnar víða um land stuðlar að því að halda landinu öllu í byggð. Við teljum ferðaþjónustuna líklega til að gera allt þetta að nýju þegar fram í sækir og áhrifa heimsfaraldurs gætir ekki lengur. Við sem skipum minni hlutann, við hv. þm. Sigurður Páll Jónsson, teljum hins vegar að fjárhæð ferðaávísunar hefði þurft að vera hærri til að aðgerðin sem í frumvarpinu felst verði meira en táknræn, eins og henni hefur verið lýst af ráðamönnum hér, þannig að hún nýtist ferðaþjónustunni sem lyftistöng við þær erfiðu aðstæður sem hún horfist í augu við.

Í því ljósi telur minni hlutinn rétt og eðlilegt að af hálfu stjórnvalda verði greininni veittur öflugri stuðningur, sem sumir myndu kalla innspýtingu í þá veru sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Við fulltrúar Miðflokksins í hv. atvinnuveganefnd leggjum því til að fjárhæð ferðaávísunarinnar verði hækkuð úr 5.000 kr. í 15.000 kr., sem við teljum í senn að myndi muna um fyrir greinina en taki líka tillit til erfiðra aðstæðna í ríkisfjármálum.

Ég vil geta þess að við Miðflokksmenn munum við umræðu um fjáraukalög, sem gera má ráð fyrir að sé skammt undan, flytja tillögu um sérstaka fjárveitingu til að standa straum af þessari hækkuðu fjárhæð ferðaávísunarinnar. Við teljum sömuleiðis að henni yrði einnig að hluta til mætt með hagræðingu.

Svo segir í áliti minni hluta, með leyfi forseta:

„Að þessu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað fjárhæðarinnar „5.000 kr.“ í 1. mgr. 1. gr. komi: 15.000 kr.“

Undir álitið rita sá sem hér stendur, Ólafur Ísleifsson, og Sigurður Páll Jónsson.