150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það eru auðvitað annmarkar á fyrirkomulaginu sem við erum með til umfjöllunar hér eins og svo mörgu öðru. Ég átta mig á því að það er ekki bara um vísitölufjölskyldur að ræða í dag, eins og hefðin var kannski fyrir hér áður. Þar af leiðandi geta einmitt komið fram annmarkar á því hvaða hluti fjölskyldu getur nýtt sér gjöfina o.s.frv. Ég þykist vita að umræðan hafi verið sú. Það sama á kannski líka við, eins og hv. þingmaður nefndi, að það leysir ekki allt þótt fjárhæðin sé hækkuð, þ.e. gagnvart foreldrum sem eru með börn á tveimur heimilum. Ég hefði sjálf kosið að það væri bara handa öllum frekar en að sjá það hækkað.

En hitt er kannski það sem málið snýst um, þ.e. að sem flestir nýti sér þetta, að sem flestir leggi land undir fót sem það mögulega geta og þeir sem það ekki geta ráðstafi þá kannski sínu til fjölskyldu eða vina eða hvernig það nú er þannig að peningarnir komist í vinnu. Mér finnst það vera mjög mikilvægt, bæði fyrir auðvitað þá sem njóta, þ.e. landann sem ferðast og svo þau ferðaþjónustufyrirtæki sem um ræðir.

En stóra málið er auðvitað það, sem ég velti fyrir mér: Er hægt að vera með tæmandi talningu á allri þeirri afþreyingu sem er undir? Getur Ferðamálastofa eða einhver annar tekið það verkefni að sér? Hér er verið að tala um hvaða búnað er hægt að leigja og jafnræðissjónarmið í því og þess vegna hefði ég gjarnan viljað sjá, í ljósi þess að það er helsta gagnrýni Miðflokksins, að þingmenn hans hefðu gert tilraun til þess að sýna fram á að hægt væri að gera það.