150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja að ég tel að verkaskipting sé kannski gagnleg. Ég tel ekki að einhver sönnunarbyrði sé á okkur Miðflokksmönnum. Þetta er stjórnarfrumvarp og ríkisstjórnin er með allt sitt sérfræðingabatterí, ráðuneyti og stofnanir á bak við sig og er auðvitað í miklu betri færum til að leysa úr tæknilegum vandamálum sem hér hafa verið gerð að umræðuefni og voru gerð að umræðuefni í hv. atvinnuveganefnd. Það er kannski meira fyrir stjórnarmeirihlutann að sinna því verkefni.

Það sem er auðvitað aðalatriðið í minnihlutaálitinu er það að með þeirri tillögu sem hér er flutt um að hækka þetta úr 5.000 kr. í 15.000 þá breytist málið í eðli sínu. Það breytist í efnahagspólitíska aðgerð í miklu meira mæli en nú um ræðir. Með því að þrefalda fjárhæðina er þarna kominn miklu marktækari og öflugri stuðningur við grein sem hefur lagst á hnén undan þessari veiru, við grein sem hefur, eins og ég fjallaði um í framsöguræðu minni og fjallað er um í minnihlutaálitinu, verið burðarás og aflgjafi í íslensku atvinnu- og efnahagslífi og hefur alla möguleika á því að verða það aftur. Þær fjárhæðir sem hér er um að ræða eru náttúrlega bara brotabrot miðað við þær fjárhæðir sem greinin hefur fleytt inn í íslenskt þjóðarbú í formi tekna, hálaunaðra starfa, erlends gjaldeyris og í því formi að hún er sú grein sem hefur hvað besta möguleika (Forseti hringir.) til að tryggja það sem ég veit að við öll óskum, að landið sé allt í byggð.