150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að heyra að ferðagjöf eða ferðaávísun er ekki aðalatriðið, annars hefðum við þurft að eyða tíma í það. (Gripið fram í.) Mögulega smá, en mér finnst það ekki skipta neinu máli. Ég hef útskýrt það.

Varðandi gildistímann erum við raunverulega bara að fara eftir því sem alþjóðasamningar okkar gera ráð fyrir með þessa dagsetningu, 31. desember, eins og ég kom inn á áðan. Hún hefur þá vægi í gegnum það.

Um 15.000 krónurnar. Ég vil bara tala um mikilvægi ferðaþjónustu fyrir efnahagslíf þjóðarinnar, eins og ég hef oft gert hér, og hvað þetta hefur í raun og veru umbreytt efnahag Íslendinga og hagrænum þáttum, sérstaklega frá 2010 þegar 500 þúsund ferðamenn komu til landsins.

Í nýjum tölum Hagstofunnar í síðustu eða þarsíðustu viku kom fram að neysla erlendra ferðamanna á Íslandi hafi verið 284 milljarðar á síðasta ári. Það er fyrir utan Íslendingana, það er fyrir utan flugið. Þetta eru tölurnar. Þetta eru gríðarlegar upphæðir og við munum ekki redda íslenskri ferðaþjónustu með ferðagjöfinni, við munum ekki fylla í það gat. Þar er um að ræða miklu stærri aðgerðir, eins og hv. þingmaður þekkir, í gegnum Covid-aðgerðirnar sem snúa raunverulega að atvinnumarkaði, atvinnulífinu og hlutabótaleiðum og slíkum hlutum. Það er kannski það sem komið hefur ferðaþjónustunni hvað best varðandi rekstur hennar. Það hleypur á milljarðatugum.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hann þá að það myndi hámarka nýtingu að hækka ferðagjöfina upp í 15.000 kr., um 10.000 kr. á hverja kennitölu, 18 ára og eldri, um 3 milljarða? Að það væri hámörkun á almannafé, að hækka það í staðinn fyrir að setja það í markaðsátak erlendis eða aðra þætti þar sem sama upphæð verður nýtt, 1,5 milljarðar í slíka markaðssetningu? Þetta snýst nefnilega um að nýta og hámarka nýtingu á almannafé.