150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar rétt að koma inn á varðandi 5.000 kr. fjárhæðina og það sem við ræddum í meirihlutaálitinu áðan. Það snýr raunverulega bara að skattskyldu og heimild til framsals, þ.e. skattskyldunnar í málinu. Þetta eru 5.000 kr. og síðan má einstaklingur nota 15 ferðagjafir, samtals 75.000 kr. Það eru ákveðin sjónarmið sem koma fram í nefndarálitinu sem snúa að því atriði.

5.000 kr., 15.000 kr., 50.000 kr. Við ræddum þetta. Það er endalaust hægt að fara í þær áttir, en varðandi 5.000 kr. eða 15.000 kr. ferðagjafir hefur það með tekjuskatt að gera, eins og ég kom inn á áðan, og annað varðandi skattskyldu og slíka þætti. En ég held hins vegar að aðalatriðið í þessu sé að málið er bara fínt og það mikilvægasta er að koma þessari atvinnugrein aftur á fætur. Hún er okkur gríðarlega mikilvæg. Og ef fólki finnst þetta lítið, 5.000 kr., er það minnsta sem það getur gert að færa einhverjum aðstandanda eða einhverjum einstaklingi sínar 5.000 kr., ef þetta er svo lítill peningur að fólki finnst þetta ekki skipta máli. Ég bendi fólki á að gefa ferðagjöfina þá áfram, færa gjöfina til þeirra einstaklinga sem hafa kannski meira við hana að gera og finnst 5.000 kr. vera eitthvað í dag, ef því finnst þetta vera hlægileg upphæð, eins og kom fram hjá hv. þingmanni. Mér finnst 5.000 kr. ekkert hlægilega lítil upphæð. (Forseti hringir.) Það má þá færa hana einhverjum sem þetta skiptir meira máli en viðkomandi.