150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Málið snýst ekki um hvort fjárhæðin sé á þennan veginn eða hinn, hvaða orð menn vilja hafa um hana. Hún er að sjálfsögðu ekki mjög há. Hún hrekkur ekki mjög langt. En ég verð að segja að ég leyfði mér að vona að á vettvangi hv. nefndar yrði gert eilítið meira til að bæta frumvarpið. Eins og er um öll mannanna verk er alltaf hægt að bæta þau. Við sáum til að mynda í öðru máli, um innflutning dýra, sem við fjölluðum um í dag, hvað það mál batnaði mikið í meðförum nefndarinnar eftir að við Miðflokksmenn kölluðum eftir því að fundað yrði milli 2. og 3. umr. og fengnir sérfræðingar til að fjalla um það að með samþykkt frumvarpsins væri í engu ógnað smit- og sóttvarnaöryggi.

Í þessu máli hefur mikilvægasta breytingin verið takmörkunin sem felur í sér að menn skuli hafa lögheimili hér á landi. Hún kom í framhaldi af mjög skýrum og skarplegum ábendingum frá líklega Þjóðskrá, þannig að ég tel að kannski hefði mátt bæta frumvarpið í þeim tæknilegu efnum sem um er að ræða. En ég taldi það hlutverk okkar, eins og ég hef lagt áherslu á áður, að leggja meiri áherslu á hinn efnahagslega þátt í málinu með því að gera (Forseti hringir.) þetta mál þannig úr garði að það munaði verulega um það fyrir atvinnugreinina. Það tel ég skipta mestu máli.