150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[18:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að koma hér upp og fagna þessu góða máli. Ég get ekki orða bundist eftir að hafa hlustað á sumar ræðurnar hérna áðan. Ég held að flestum hafi tekist að segja í ræðu sinni að málið væri bara gott þó að hægt hafi verið að finna alls konar hluti því til foráttu. En við skulum muna að þetta er einmitt gott mál. Það styður við fjölskyldur og heimili í landinu til að ferðast innan lands. En það er líka mikilvægur stuðningur við stærstu atvinnugreinina okkar, sem er líka í hvað mestum vandræðum eins og er, þ.e. ferðaþjónustuna. Við vitum að aðgerðin mun ekki breyta öllu fyrir greinina en hún er táknræn og mun hafa ákveðin snjóboltaáhrif.

Þegar ég heyrði það í ræðum í dag að annars vegar ætti ekki að styðja þá sem ekki þyrftu á hjálpinni að halda og hins vegar að upphæðin væri allt of lág, þá fannst mér svolítill tvískinnungur í því. Talað er um að útvíkka þurfi afmörkunina sem er í lögunum — eða frekar að þrengja hana.

Skemmtilegasta umræðan var um hvort þetta ætti að vera ávísun eða gjöf. Ég held að ávísun sé bara útdautt fyrirbæri. Ég held að það finnist meira að segja frétt á mbl.is þess efnis að ávísanir séu útdauðar á Íslandi. Ný kynslóð hefur ekki hugmynd um hvað ávísun er. Jú, ný kynslóð myndi örugglega þekkja gjafakort, en við göngum enn lengra og gerum þetta að rafrænni lausn. Augljóslega er þetta innstæða eða gjöf, hvernig sem fólk vill skilgreina það, og sumir finna því allt til foráttu. En á sama tíma er upphæðin samt líka allt of lág, þannig að það virðist vera svolítið erfitt að uppfylla öll þau skilyrði sem fram hafa komið hjá þingmönnum. En ég held að stóra málið sé bara, og það er það sem við eigum að muna, að þetta er gott mál. Það er mikilvægt að það sé afgreitt í dag vegna þess að við þurfum að sjá þessar ávísanir, inneignir, gjafir, komast í hendur fjölskyldna í landinu sem fyrst svo fólk geti farið að njóta þess að ferðast um hið fagra Ísland.